Espergærde. Ekki Dúddi dansari.

Nýr dagur og ekki nýr. Laugardagar eru líkir hver öðrum eins og aðrir vikudagar líkjast hver öðrum. Vandinn við að skrifa dagbók (svo maður skrifi ekki alltaf það sama) er að finna stundum ný sjónarhorn á hið reglubundna líf; fimm virkir dagar á skrifstofu við þýðingar og önnur verkefni og svo tveir helgardagar þar sem þýðingarstörfin eru ekki stunduð. Þessi danstaktur kallast 5:2 og er nokkuð auðvelt að læra þennan takt jafnvel þótt maður sé ekki Dúddi dansari.

Ég hef notað morguninn til að reyna að komast í samband við norska rithöfundinn Tomas Espedal, þó ekki hann persónulega, heldur skrifin hans. Ég vaknaði snemma, las morgunblaðið, eldaði mér hafragraut og hellti upp á kaffi. Svo settist ég niður, hér í minn mjúka stól og las í tvo klukkutíma í bók Tomasar (Biografi, dagbog, breve). Tomas Espedal fær mikið hrós fyrir bækur sínar sem gefnar eru út hér í Danmörku. Nú hef ég margoft reynt að lesa skrifin hans (ég hef keypt þrjár af bókunum hans) en mér leiðist hann. Kannski leiðist mér bara persónan Tomas Esperdal sem ég hef margoft hitt á bókmenntahátíðum og messum. Ég næ bara ekki að hrífast af þessum alkóhólíseruðu textum.

Hins vegar tók ég eftir því að einn af mínum gömlu höfundum, utangarðsmaðurinn í íslenskum bókmenntum, Sigurjón Magnússon, fær mikið hrós á hinum ágæta Leslista. Mér þótti skrif hins unga rithöfundar, Sverris Norland, um bækur Sigurjóns áhugaverð; sérstaklega þegar hann segir að texti Sigurjóns sé kannski of fágaður, á of góðri íslensku til að bækurnar nái til lesandans. Þetta getur vel verið hárrétt ályktun hjá hinum unga höfundi. Eins finnst mér Sverrir hitta naglann á höfuðið þegar hann bendir á hve athyglisverð viðfangsefni Sigurjón tekst oft á við. Þar er ég líka sammála honum:

„…bókin nefnist Sonnettan og er eftir Sigurjón Magnússon. Hugmyndin að baki þessari nóvellu er mjög svo áhugaverð og áleitin: Menntaskólakennarinn Tómas hrekst úr starfi í kjölfar þess að hafa álpast til að velja þekkta sonnettu eftir Snorra Hjartarson í kennsluhefti fyrir nemendur sína. Fljótlega heyrast raddir sem fullyrða að umræddur kveðskapur Snorra sé andstæður fjölmenningu á Íslandi („land, þjóð og tunga: þrenning sönn og ein“). Tómas situr fast við sinn keip, ljóðið sé sígilt í íslenskum bókmenntum 20. aldar og fásinna að skýla krökkum fyrir hugmyndaheimi fortíðarinnar, auk þess sem rasískir undirtónar kvæðisins spretti einungis af rangtúlkunum hjá hinni hroð- og hraðvirku siðgæðisvél samtímans. Sjálf sagan gerist svo á Spáni, þar sem Tómas og konan hans, Selma, eru í fríi. Það hriktir í hjónabandinu, og endir sögunnar er hádramatískur – allt að því móralskur í því hvernig sumar persónanna fá makleg málagjöld (og minnti mig þar frekar á rússneskar bókmenntir, segjum, Tolstoj eða Tsjekhóv, en flest önnur – og kaldhæðnari – samtímaverk). Þá staldrar maður við og spáir hvernig komið er fyrir íslenskunni þegar manni finnst það að vissu leyti ljóður á verki hversu vel það er ritað – það skapaði svolitla fjarlægð á persónur og söguefnið hversu tær og snurðulaus stíllinn er… Mér finnst Sigurjón heyja sér áhugaverð viðfangsefni og mun áreiðanlega rekast á sitthvað fleira bitastætt í verkum hans.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.