Espergærde. Trilljón lækum síðar

París á morgun og vikudvöl í Batmaníbúð, þannig var planið. Ég hef reynt að undirbúa vinnuvikuna í París síðastliðinn mánuð og skipuleggja það sem þarf að skipuleggja. Í gær ætlaði ég svo að prenta út flugmiðann. Ég leitaði í öllum tölvupóstum að farmiðanum en varð loks að horfast í augu við að ég hafði bara alveg gleymt að kaupa farmiða. Ég rauk auðvitað inná heimasíðu SAS til að sjá hvort enn væru lausir miðar með fluginu til Parísar frá Kaupmannahöfn. Nei! Uppselt!

Ég varð auðvitað alveg miður mín yfir þessari hrapalegu hrösun. En samtímis verð ég að viðurkenna að þetta er svo sem ekki ólíkt mér að hrasa á leið minni í gegnum lífið. Ekkert flug og ég sá fyrir mér að draumurinn um að taka leigubíl til Parísar gæti ræst (grín). Eftir nokkrar mínútur með hjartslátt og yfirþyrmandi vonbrigði í blóðinu komst ég að því að Air France flýgur líka milli Kastrup og CDG flugvallar í París og þeir áttu eitt sæti, 18A, fyrir mig sem ég keypti og kemst því fljúgandi til Parísar á morgun, yo!

Ég heyrði í morgun að LIKE hnappur facebook sé tíu ára í dag. Til hamingju! Engum datt í hug fyrir tíu árum hve mjög við „lækum“ LIKE hnappinn og hversu hamingjusamari allur heimurinn er orðinn trilljón lækum síðar. Þetta er einfaldlega stórmikilvæg uppfinning fyrir velferð mannkyns. Stærri en penselínið, stærri en Viagrapillan. Megastórt læk til Zuckerbergs.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.