París. Í leit að glötuðum tíma

Þótt ég hefði vandaði mig áður en ég lagði af stað til Parísar að velja rétta lesefnið (átta bækur komu með í töskunni minni) uppgötvaði ég í 7:05 lestinni á leið til Kastrup að ég hefði auðvitað átt að taka með mér þýðingu Péturs Gunnarssonar á Proust, Í leit að glötuðum tíma. Ég gaf bókina út árið 1997 og því eru um tuttugu ár sem ég las þessa snilldarlegu þýðingu Péturs. Í mínum huga skrifar enginn Íslendingur jafn hnitmiðaðan texta og Pétur. Honum tekst alltaf að velja réttu orðin, rétta taktinn í setninguna svo setningin fær bæði skýra merkingu og aukið líf. Það var einmitt þetta sem laust niður í hausinn á mér í lestarferðinni suður Sjáland í átt til Kastrup, og mig langaði að lesa texta eftir Pétur Gunnarsson.

Laxness sagði um verk Proust að þau væru „… einmalig; það er bók sem samin er í eitt skipti fyrir öll… og mun hverfa… án þess að eignast sinn líka.“ En á öðrum stað sagði hann að maður skyldi ekki óttast að Íslendingar færu að lesa Proust … „sá dagur kemur aldrei að íslendíngar fari að lesa Proust. Íslendíngar mundu ekki einusinni fara að lesa Proust þó þeir feingju hann á dönsku.“ Þetta var ekki alveg rétt því við seldum þau 1500 eintök af hvoru bindi sem voru prentuð. Það tók að vísu langan tíma en þau seldust á endanum.

En ég er kominn á áfangastað, sit hér í Batmaníbúðinni í París og klukkan er orðin hálffjögur þann 12. mars. Það er engin planlögð dagskrá í dag.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.