Ég las heila bók í gær – hvern staf frá fyrstu setningu til hinnar síðustu – enda tekur ferðin frá Espergærde á Norður-Sjálandi til íbúðarinnar í þriðja hverfi Parísarborgar drjúgan tíma þegar allt er talið og það er oft fínt að lesa á ferðalagi. Það gerist ekki oft að les bók í einu höggi. Ég hef fylgst með Karl Ove Knausgaard síðan ég las hinn mikla sex binda bálk hans Min kamp fyrir nokkrum árum. Meira og minna allt sem hann hefur skrifað síðan hefur komið fyrir augu mín. Í janúar sendi hann frá sér nýja bók – stutt essay einungis 130 blaðsíður – sem ber heitið Hvers vegna skrifa ég? Það var einmitt þessa bók sem ég las í lestinni á ferð suður Sjáland, í stól á Kastrupflugvelli á meðan ég beið eftir að flugið til Parísar færi í loftið, í flugvélinni í sæti 18A við hlið ungrar menntaskólastúlku á leið til Portúgal með menntaskólabekknum sínum, í lestinni frá CDG flugvellinum inn til Parísarborgar og svo á kaffihúsi þar sem ég, til að klára bókina, staldraði við á göngu minni frá lestarstöðinni við Les Halles til Batmaníbúðarinnar á Rue des Tournelles.
Hvað fannst mér svo um bókina? Ja … ég var kannski ekki stórhrifinn en Knausgaard kveikti í mér áhuga á að lesa Proust, Í leit að glötuðum tíma. Löngun mín til að lesa þessa frábæru þýðingu Péturs Gunnarssonar var svo sterk að ég leitaði um allt internetið hvort ekki væri búið að skanna bókina og gera hana aðgengilega fyrir mann í Parísarborg sem var fjarri íslenskri þýðingu. Ég fann auðvitað ekki íslensku þýðinguna á netinu; Bjartur hefur ekki gefið bækurnar út í rafrænni útgáfu. Á endanum skrifaði ég til Jón Kalmans og bað hann að taka myndir af fyrstu síðum bókarinnar og senda mér. „Lengi hef ég kvöldsvæfur verið. …“

Ég er sem sagt í París þessa viku og var auðvitað mættur hér á litla hipsterakaffihúsið í götunni minni klukkan átta í morgun; eða um leið og það opnaði. Ungu hipsterarnir tóku á móti mér með kostum og kynjum; faðmlögum og kinnakossum. Það var gaman að fá svona hlýjar móttökur; ég var ekki einu sinni vissi um að þau mundu muna eftir hinum langlimaða Íslendingi sem pantar hafragraut hvern morgun þegar hann er staddur í París. En þau eru mér velviljuð ungmennin sem eiga þetta fína litla kaffihús. (Þau nota kaffibaunir sem gefa af sér hrikalega biturt kaffi. Ekki mitt uppáhald en hafragrautinn þeirra er fínn).
Í dag byrjar ballið eins og maður segir. Verkefni bíða mín. Ég hafði ætlað mér að byrja í gær að undirbúa mig undir verkefni dagsins í dag en mér var svo skelfilega illt í maganum að ég varð að leggjast upp í sófa. Ég setti útvarp í gang (hlustaði bæði á Lestina, Víðsjá og útlent podcast) á meðan ég reyndi að jafna mig, en það var ekki fyrr en komið var kvöld að ég gat staðið aftur á fætur. Ákvörðun tók sig sjálf: frí í gærkvöldi og ég horfði á Juventus vinna Atletico upp í rúmi ( ohhhhh hvað mér þykir gaman að horfa á fótbolta!).
Ég var vaknaður klukkan sex í morgun, nokkuð hress (að vísu er maginn enn aðeins að trufla mig), las Politiken og New York Times upp í rúmi, svaraði tölvupóstum gærdagsins og furðaði mig jafnframt á þeirri (hér kemur smá nöldur) furðulegu tilhneigingu fólks að svara ekki tölvupóstum ef erindið krefst einhvers af þeim eða er á einhvern hátt ekki að þeirra skapi. Þetta gildir um þá sem ég skrifa tölvupóst vegna byggingaframkvæmda, vegna bílaleigu, vegna útgáfumála … þetta finnst mér furðulegt. Oft þarf maður að ítreka fyrirspurnir sínar margoft til að fá svar … (hér endar nöldrið) en svo eru aðrir sem eru svo fljótir að svara að svarið er komið áður en ég hef sent fyrirspurnina í tölvupósti.
ps. Ég var að hugsa um afköst, eljusemi og dugnað. Allt mitt líf, sjálfsmynd mín og sjálfsskilningur byggir á því að ég sé duglegur eða að minnsta kosti að ég vil vera duglegur. En ég rakst á þá staðreynd að Edward Munch málaði 1700 málverk á ævi sinni (sem var að vísu óvenju löng) en það er dæmi um töluverða eljusemi. Ef ég væri málari mundi ég stefna á að mála að minnsta kosti 1700 olíumálverk á minni ævi. Ég ætti að stefna að því að skrifa 17.000 dagbókarsíður á ævinni. (Það tæki mig 43 ár ef ég held áfram sömu færslutíðni. Nú hef ég skrifað 1167 dagbókarfærslur.)