París. Rigning í mars

Það er kominn fimmtudagur og það rignir í París. Eins og aðra morgna sit ég hjá hipstervinum mínum á kaffistaðnum þeirra. Hafragrauturinn er kominn á borðið. Fólk kemur inn og hristir votar regnhlífar sínar áður en það fær sér sæti. Hér er sem sagt allt í rútínu.

Ég var kominn upp í rúm um hálftólfleytið í gærkvöldi og ákvað að lesa menningarkálf Politiken því ég var ekki nógu syfjaður til að sofna. Þar las ég litla grein um sjálfan Michel Houellebecq og fékk skyndilega þá góðu hugdettu að reyna að hafa upp á skáldinu. Ég er í París og hann býr í París, sem sagt í sömu borg. Ég hafði gert ráð fyrir tveggja klukkutíma göngutúr í dagskrá dagsins og ákvað þarna í rúminu í gær að ég skyldi nota þessar tvær klukkustundir til að finna skáldið og kannski banka upp á hjá honum og heyra hvað hann hefði að segja mér í fréttum. Ég þarf helst að hafa markmið með göngu minni.

Ég veit að hann býr í háhýsi 13. hverfi rétt við Place d’Italie og á mottunni fyrir framan íbúðardyrnar hans er mynd af bulldog. Ég sá á Google Map að það tekur mig 49 mínútur að ganga hvora leið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.