París. Í heimsókn hjá manni

Google hefur rétt fyrir sér. Það tekur mig 49 mínútur að ganga (og ég geng greitt) frá Rue des Tournelles út að Place d’Italie. Ég hafði tekið mér tveggja tíma frí frá störfum í gær. Og um tvö leytið lét ég verða af því að ganga af stað í átt til Place d’Italie og finna háhýsið þar sem Michel Houellebecq býr í þriggja herbergja íbúð. (Ég hafði fundið sumarhús hans á suður-Spáni í Almaria en þangað ætlaði ég ekki.) 

Ég átti svo sem ekki von á að auðvelt væri að finna íbúðina hans í París en ég gerði það að gamni mínu að leggja svolítinn metnað í leitina. Ég þekki umboðsmann rithöfundarins og spurði hana hvort hún vissi hvar hann ætti heima. Hún mundi það ekki en hafði þó komið heim til hans. Hún mundi eftir háhýsinu og gólfmottunni fyrir framan dyrnar að íbúðinni. Á mottunni var mynd af bulldog. Annað hafði ég ekki en að íbúðin var í þrettánda hverfi Parísarborgar og var í einu af tveimur háhýsum við Ítalíutorg, Place d’Italie.

Ég gekk bara af stað. 49 mínútur aðra leið – einn klukkutími og 38 mínútur báðar leiðir – og ég hafði gefið mér tvo klukkutíma til að finna skáldið og koma mér aftur að störfum. Verkefnið var bara dægradvöl stórnefjaðs Íslendings sem er einn á ferð í útlöndum en ég skemmti mér við þetta (þótt í sannleika sagt tímdi ég varla þessum tveimur klukkutímum af deginum í langa gönguferð) en ég gekk greiðlega og ákveðinn af stað og var fljótlega kominn upp á breiðgötuna miklu Boulevard Bourdon.

Það hefur rignt alla dagana mína hér í París og í gær var að auki strekkingsvindur. Það var því enn ríkari ástæða til að hraða för sinni. Mér til nokkurrar furðu hafði ég skyndilega fengið fylgdarsvein. Ég hafði varla gengið nema nokkrar mínútur þegar ég varð var við mann sem gekk rétt á hæla mér. Þótt ég herti för var hann enn rétt undan og þótt ég hægði göngutaktinn var hann enn rétt fyrir aftan mig. Ég leit við til að skoða manninn. Hann var með ferköntuð gleraugu sem verða dekkri í sólarbirtu. Hann var mjög snyrtilegur, í brúnni dúnúlpu og hárið lá eins og smurt á skallann á honum, ekki eitt hár á röngum stað, svo vel var hann greiddur. Hann var sennilega með arabískan uppruna.

Ég staldraði við á götuhorni til að taka mynd af götuskilti og ég sá að maðurinn nam staðar nokkrum metrum fyrir aftan mig og fylgdist með mér við myndatökuna. Ég var ekki hræddur við manninn en ég skildi svo sem ekki hvað hann vildi. Ég hafði ekkert að bjóða þessum manni.

Þegar ég kom á Place d’Italie blöstu við mér stórhýsin tvö. Það tók mig ekki margar sekúndur að velja hvaða byggingu ég veðjaði á. Ég strunsaði áfram og mannauminginn, skuggi minn, í humátt á eftir mér. Við inngöngudyrnar voru engin nöfn, engin nafnskilti, hvergi var hægt að sjá hvort skáldið byggi í húsinu. Ég norpaði fyrir utan útidyrnar, sterklegar járndyr, eitt augnablik á meðan ég velti fyrir mér hvort nú væri nóg komið. Ætti ég að snúa við? Ég gæti auðvitað bara beðið fyrir utan til að athuga hvort Houellebecq kæmi út en ég mundi líka, af öllu því sem ég hef lesið um hann, að hann færi sjaldnast út fyrir hússins dyr. Skyndilega opnaðist möguleiki, ungur maður með derhúfu og hettu yfir höfðinu gekk út og hélt opnu fyrir mér, ég gekk inn.

Það var vond lykt í stigaganginum, lykt af sorpi. Ég gekk upp tröppurnar. Það voru tuttugu og átta hæðir upp á efstu hæð og þrjár íbúðir á hverri hæð. Þótt nafnspjöld væru á flestum dyrum hafði ég fyrst og fremst áhuga á dyramottunum. Ég vonaðist eftir að finna bulldog-dyramottu. Það bergmálaði í stigaganginum þegar ég þrammaði upp tröppurnar og út úr sumum íbúðunum heyrðust samtöl, sjónvarpskliður og tónlist.

Ég var kominn upp á níundu hæð þegar bulldog-dyramottan blasti við mér. Á dyrunum var engin merking. Ég hikaði. Átti ég að fullkomna daginn með því að banka. Hjartað byrjaði að hamast í brjósti mér og ég fann að ég var bæði andstuttur og taugastrekktur. Ég settist í tröppurnar, kastaði mæðinni og hugsaði minn gang. Ég hafði engu að tapa; ég stóð á fætur og bankaði á hurðina. Ég heyrði umgang inni í íbúðinni og svo var dyrunum lokið upp. Fyrir framan mig stóð fremur hávaxinn maður, snyrtilegur, í fínum fötum og eiginlega myndarlegur. Ég þekkti strax andlitið, þetta tekna andlit. Hann leit miklu betur út en á höfundarmyndunum. Hann horfði spyrjandi á mig og ég hef sennilega horft spyrjandi á hann. Ég fann keim af áfengi í loftinu. Og allt í einu kom upp úr mér straumur af orðum. Hann lygndi aftur augunum á meðan hann hlustaði og sagði mér að koma inn. Ég gekk inn um dyrnar og á hægri hönd voru stálhillur þar sem voru ægilegar birgðir af vatni, ég giska á þrjúþúsund lítrar. Ég sá að skáldið settist niður í stól inni í stofunni. Fyrir framan hann var borð og á því stóð hvítvínsflaska, ekkert vatn og eitt glas. Flaskan var nærri því tóm.

„Þekkirðu Stooges?“ var það fyrsta sem hann sagði. Ég skammaðist mín fyrir að vita ekki hvað Stooges var. Hafði þó heyrt nafnið en í minni örvæntingarfullu leit í huganum datt mér ekkert í hug. Ég varð að viðurkenna að ég þekkti ekki Stooges. „Ég skal spila þá fyrir þig,“ sagði hann. „Iggy Pop las Áform (Platforme) og sendi mér bréf þar sem hann sagðist ekki hafa lesið jafn skemmtilega bók í tíu ár. Við erum núna vinir.“ Svo þagnaði hann og andaði þungt. Mér kom á óvart að hann montaði sig. Ég hafði ekki ímyndað mér að hann montaði sig. En hann var fljótur að draga í land. „Fyrirgefðu,“ sagði hann svo með lokuð augun. „Mér datt þetta bara allt í einu í hug.“ Röddin var algerlega laus við orku og ástríðu. Það var eins og hann talaði við sjálfan sig. Hann sat með lokuð augu, muldraði og ég var hræddur um að hann væri að sofna. „Ég hef verið á Íslandi. Hef ég ekki verið á Íslandi?“
„Ég veit það ekki,“ sagði ég, því ég vissi það ekki. „Hefurðu verið á bókmenntahátíð í Reykjavík?“ 
„Ég veit það ekki,“ svaraði hann með lokuð augun. Rómurinn var svo lágur að ég varla greindi það sem hann sagði.

Hann virtist bara vera ánægður að sitja á móti mér og svara spurningum. Ekkert virtist ýta á eftir honum, hann hafði allan heimsins tíma og veröldin fyrir utan með öll sín tímamörk virtist ekki hafa áhrif á hann. Hann var glaður að hafa hvítvínsflöskuna sína og fá leyfi til að tala um sjálfan sig. Hann montaði sig ekki aftur.

Hann þagnaði – hann talaði með löngum hléum – svo sátum við þegjandi að minnsta kosti í þrjár mínútur. Hann með lokuð augun. Gluggatjöldin voru gul. Svo sagði ég: „Nú er ég búinn að sjá þig. Mér þótti gaman að hitta þig en ég verð víst að halda áfram að vinna.“ Mér fannst ekki óþægilegt að sitja þegjandi með honum, það var ró yfir okkur, en það var rétt að halda áfram. Mér fannst heimurinn kallaði á mig. (Nú þegar ég skrifa um þennan atburð hálfum sólarhring síðar, átta ég mig á að það var ímyndun.)
„Það er rétt, þú þarft að vinna,“ sagði hann svo allt í einu svo lágt að ég heyrði varla í honum. Hann hvíslaði. „Fyrst þú ert að standa á fætur, nennirðu að ná í hvítvínsflösku inn í eldhúsi. Chablis.“

dagbók

2 athugasemdir við “París. Í heimsókn hjá manni

  1. Pingback: KAKTUSINN

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.