París. Draugar

Ég verð að skrá það hjá mér að engu er líkara en að hér í Batman íbúðinni lifi og starfi stafrænn draugur. Í gærmorgun vaknaði ég við að sjónvarpið fór allt í einu í gang. Klukkan var hálfsex að morgni og ég hef ekki komið nálægt sjónvarpinu þessa daga mína hér. Ég lá sofandi þegar frönsk sjónvarpskona, með ljóst hár og í rauðri dragt, birtist brosandi á skjánum og sagði frá einhverju sem var væntanlega fréttnæmt. Ég skil ekki frönsku svo ég veit ekki hver fréttin var. Ég slökkti bara á sjónvarpinu og hélt áfram að sofa.

Í gærkvöldi þegar ég kom heim frá kvöldmatnum – ég fór að heilsa upp á vini mína á ítalska veitingastaðnum – opnaði dyrnar að íbúðinni með gulllyklinum sem ég geymi í buxnavasanum og gekk inn, var aftur kveikt á sjónvarpinu og þetta sinn logaði kyrramynd á skjánum (sjá mynd). Ég hélt kannski að þetta tengdist símanum mínum, því mynd af farsíma var á sjónvarpsskjánum, en það var slökkt á símanum mínum og hann í hleðslu inni í svefnherbergi. Ég slökkti bara aftur á sjónvarpinu og í þetta sinn tók ég það úr sambandi.

Svo gerðist það rétt áðan þegar ég var inni í eldhúsi að hella mér upp á kaffi, að skyndilega barst hávær dixielandtónlist innan úr stofunni. Ég hélt fyrst að sjónvarpið væri aftur farið í gang þótt ég hefði tekið það úr sambandi en í þetta sinn var það Bose-bluetooth-hátalari sem spilaði tónlist af Spotify tölvunnar minnar (ég spila aldrei dixielandtónlist!). Það voru tónar af hljómplötunni Dixieland in Nepals sem streymdu frá hátalaranum og yfir stofuna. Já. Hmmm?

Þetta er hér með skjalfest.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.