París. Fíkn og fullnæging þarfa

Á ferðum mínum um Parísarborg í gær – ég gekk frá einum stað til annars – helltist skyndilega yfir mig ómótstæðileg fíkn. Ég var á göngu eftir þröngri og fáfarinni götu, húsbyggingarnar risu hátt yfir mér á báðar hendur og ég var bara í mínum þönkum, hugsaði vafalaust eitthvað sem bæði var gáfulegt og skemmtilegt þegar yfir mig kom skyndileg og óstjórnleg löngun í hamborgara og franskar. Ég held að það séu tvö eða þrjú ár síðan ég hef síðast keypt mér hamborgara á veitingastað en þarna á göngunni gat það bara ekki beðið sekúndunni lengur að finna borgarabúllu.

Ég veit ekki hvort ég eigi að kalla það heppni eða óheppni, sennilega eiga bæði orðin við, því ég hafði vart tekið beygju fyrir næsta götuhorn þegar hamborgarabúlla blasti við mér. Ég gekk hiklaust inn, án þess að virða fyrir mér aðstæður. Það var enginn inni á staðnum – sem venjulega er ekki gott merki – þótt pláss væri vafalaust í sæti fyrir heil tvö fótboltalið og aðdáendahópa þeirra. Borðin stóðu auð í löngum röðum, langt inn eftir mjóum hala. Út við gluggann, þar sem ég fékk mér sæti, voru þrjú borð.

Tveir ungir menn stóðu við barinn í einkennisbúningi staðarins, grænum bolum, grænum útvíðum buxum og með græna derhúfu með merki staðarins á höfðinu. Þeir litu varla upp þegar ég settist, annar gekk þó letilega til mín eftir stutta bið og kastaði matseðli í skítugu plastumslagi á borðið hjá mér. Ég leit ekki á matseðilinn, því ég vissi hvað ég vildi: „Heyrðu,“ flýtti ég mér að segja áður en ungi maðurinn hvarf aftur inn í mók sitt bak við barborðið. Hann leit upp.
„Já.“
„Ég ætla bara að fá hamborgara með beikoni og franskar,“ sagði ég á minni Oxford-ensku með sérstaka áherslu á hina löngu sérhljóðana í orðinu „bacon“.
„Ókei,“ sagði hann bara og tók matseðilinn af borðinu, kastaði honum margoft upp í loftið og greip jafnharðan á leið sinni til baka. Ég hafði átt von á að fá sterkari viðbrögð við pöntun minni, meiri áhuga frá unga veitingaþjóninum.

Síðan tók biðin við. Biðin langa. Ekkert gerðist, ungu þjónarnir stóðu þegjandi bak við barborðið, skiptust af og til á nokkrum orðum annars stóðu þeir nánast hreyfingarlausir eða boruðu í nefið. Það var óvenjulega þykk þögn á þessum veitingastað, engin tónlist. Ég starði út í loftið og beið og var, eftir langa mæðu, farinn að efast um að kokkurinn inni í eldhúsinu hefði fengið mína hógværu pöntun. Enginn fylgdi dæmi mínu að velja þennan stað til að seðja löngun sinni, þótt dyrnar stæðu opnar og nóg væri af borðum og stólum.

Á endanum vinkaði ég til þjónsins. Hann horfði skilningsvana á mig þegar ég fangaði athygli hans og leit svo aftur fyrir sig til að sjá hvort ég væri að veifa einhverjum fyrir aftan hann. Að baki honum voru glerhillur fyrir áfengisflöskur af ýmsum gerðum svo hann reiknaði út, eftir stutta umhugsun, að ég væri að gefa honum merki um að koma og tala við mig. (Ég var farinn að sjá mjög eftir að hafa ekki vandað mig meira við val á hamborgarastað.)

„Heldurðu nokkuð að kokkurinn sé búinn að steikja hamborgarann minn?“ spurði ég af meðfæddu lítillæti.
„Ég veit það ekki,“ svaraði hann áhugalaus, „ … ég skal athuga …“ Og svo lallaði hann af stað með sínum letilegu hreyfingum og hvarf inn í eitthvað rými í hinum enda veitingastaðarins. Hann kom, mér til nokkurs léttis, að vörmu spori með bakka þar sem hann bar hamborgarann minn (í brauðið hafði kokkurinn stungið tannstöngli með litlum frönskum fána) og ferhyrnda pappaöskju með frönskum kartöflum. Hann skellti veitingunum áhugalaus á borðið fyrir framan mig. Ég var fljótur að setja tennurnar í hamborgarann og byrjaði að skófla matnum í mig. Ekki af því að maturinn var svo ómótstæðilega bragðgóður, heldur flýtti ég mér að borða því mér var farið að leiðast veran óskaplega á þessum vonlausa veitingastað, á þessari skítabúllu. Það tók mig varla meira en tvær mínútur að háma í mig borgaranum, borga og koma mér út.

Þetta voru nú meiri skyndikynnin, hugsaði ég með mér undarlega ófullnægður eftir að hafa látið undan fíkn minni. Þetta var ekki einu sinni góður hamborgara, var næsta hugsun, og mér er hálf flökurt eftir þessar frönsku kartöflur, var mín þriðja hugsun á göngu minni frá borgarastaðnum með stefnu á áfangastað sem var fremur langt undan.

Gönguferðin sem ég hafði tekið mér fyrir hendur var sem sagt nokkuð löng (57 mínútur hvora leið samkvæmt google). Ég var kominn langleiðina og farið að líða aðeins betur þegar ég kom auga á Subway veitingabúllu handan götunnar og það undarlega gerðist ég arkaði eins og í leiðslu yfir götuna og inn á Subway! (Það kom í ljós að ég vissi ekkert hvernig pöntunarferli brauðs hjá Subway er, valmöguleikarnir og aukaspurningarnar um langanir og þarfir eru endalaust margar). En ég kom út frá brauðstaðnum með í farteskinu samlokubrauð stappfullu af ótrúlega mörgum áleggstegundum, sósum og grænmeti, sem ég hafði ætlað mér að borða þegar ég hafði lokið erindi mínu og kominn aftur í Batmaníbúðina.

Ég hélt á Subway pokanum með áleggsbrauðinu, gekk áfram og hristi hausinn yfir sjálfum mér. Hvað er þetta? Hvað er eiginlega að mér? Af hverju er ég að panta þetta brauð? Mér finnst svona brauð bara ekkert gott!

Ég borðaði brauðið nokkrum klukkutímum síðar við borð inni í Batmaníbúðinni og aftur fylltist ég örvæntingarfullri tómleikakennd yfir þessu hræðilega vali, þessari undanlátssemi við skyndilöngun sem var þegar allt kom til alls ekki raunveruleg; byggðist ekki á neinni raunverulegri þörf inni í mér.

Ég rifja upp gærdagsins gönguferð þegar ég nú á sunnudagsmorgni sit á þéttsetnum hipsterakaffistaðnum mínum og hef fengið minn ágæta hafragraut. Ég furða mig enn og aftur á sjálfum mér og undarlegu tengslaleysi mínu við sjálfan mig. Hér syngur Bruce Springsteen og ég segi það beint út að hann er ekki í uppáhaldi hjá mér.

ps. Fyrir utan þessa undarlegu matarfíkn sem blossaði upp í mér í gær var dagurinn fullur af efasemdum og vangaveltum um stöðu verkefnisins míns. Ég er farinn að hallast að því, eða kannski frekar óttast, að valin hafi verið röng leið, en það er enn möguleiki á að snúa við og velja nýja stefnu. Um þetta hugsaði ég líka í nótt. Kannski var hamborgarinn og brauðið frá Subway (meira draslið) einhvers konar huggun eða snudda í munninn á mér. (Til fróðleiks þá notaði ég snuddu þar til ég var orðinn fimm ára og hef því drjúga reynslu af því hvað það getur verið huggunarríkt að hafa eitthvað í munninum.)

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.