París. Að velja sjónarhorn

Ég vaknaði í nótt, sennilega vegna þess að sængin mín var einhvern veginn öll í kuðli. Þetta er tvíbreið sæng – ég er bara einn í rúminu – og sængin hefur tilhneigingu til að safnast öll í eitt horn sængurversins; frekar pirrandi. En sem sagt þegar ég var að reyna að laga sængina, hálfsofandi og hálfvegis á valdi draums um pabba minn, fékk ég allt í einu hálfgert rafstuð í gegnum mænuna. Var kominn þriðjudagur? Átti ég að mæta í flug eftir nokkra klukkutíma? Eða var mánudagur? Það var ekki nóg með að ég vissi ekki hvað tímanum leið, ég vissi ekki hvar ég var og hver ég var. Ég var í fullkominni óvissu og datt ekki í hug, þarna í hálfsvefninum leið til að staðfesta verustað eða vikudag. Ég lá bara og gruflaði og komst ekki að neinni niðurstöðu.

Það var ekki fyrr en ég tók á mig rögg, settist upp og vaknaði aðeins betur, að það heiddi til í huganum, nafnið mitt kom aftur til mín og ég mundi eftir símanum mínum sem staðfesti að það var mánudagur, flugvélin flýgur til Danmerkur á þriðjudag. Einn dagur enn og ég sofnaði aftur rólegur.

Í einskonar refsingarskyni fyrir veiklyndi mitt á laugardaginn, þegar ég lét undan öllum mínum matarfreistingum, ákvað ég að gærdagurinn skyldi líða í meinlætum. Enginn matur fyrr en kvöldmaturinn kæmi á mitt borð, ekkert í munninn í huggunarskyni. Frekar skyldi ég vera óhuggandi en að borða eitthvað í tíma og ótíma.

Minn vandi er að ég er stressaður, áhyggjufullur að skila ekki almennilegum árangri eftir vikulanga fjarveru frá öllum skyldum nema gagnvart sjálfum mér. Ég lifi með stöðugt samviskubit, hið lúterska samviskubit, og ég á erfitt að losna undan því. Ég mæli sjálfan mig að eilífu með afköstum og árangri.

Mig langar að finna að ok samviskunnar verði lyft af herðum mér, mig langar að ganga áhyggjulaus til verks, léttur í sinni, spriklandi af léttúð og svífa í andans fjöri. Ekkert verður betra með því að hafa áhyggjur. Sennilega er þessi hugarvinkill, þetta sjónarhorn á lífið, sem ég verð að æfa mig í að velja.

ps. af draugunum hér er það að frétta að í nótt rétt fyrir klukkan fimm barst ómur frá tónlist úr stofunni. Enn og aftur var leikið af hljómplötunni Dixieland in Nepals, lagið Dicitencello vuje sem er hugljúft og hljómar fallega í nóttinni:

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.