París. Síðasta kvöldmáltíðin

Þriðjudagsmorgun og flugvélin mín til Kaupmannahafnar bíður á flugvellinum, örugglega að taka bensín, tilbúin að fara í loftið um hádegi. Ég er búinn að pakka, setja allt mitt hafurtask niður í tösku og brátt – þegar ég er búinn að borða morgunmatinn minn hér á mínum hipstercafé – sest ég inn í leigubíl (kannski UBER) og keyri af stað til til CDG-flugvallarins.

Já, vikan er að baki og hver er niðurstaðan? Góð vika, ekki fullkomin. Fyrsti hluti vikunnar var of stressaður, það er að segja ég var of stressaður, fór að efast um að stefnan sem hefur verið tekin sé rétt. En í seinni hluta vikunnar kom meiri ró yfir mig og nú er ég sammála sjálfum mér að þegar ég kem til Danmerkur legg ég til breytt vinnulag og sjálfur tek ég öðruvísi á málum.

Í gærkvöldi borðaði ég mína síðustu kvöldmátíð á hinum svokallað franska stað. Ég var óvenju seinn á ferð svo að borðið mitt, borðið sem mér er alltaf úthlutað (og sem er besta borðið) var upptekið. Vinkona mín, þjónninn, var eyðilögð yfir að í sætinu mínu sæti þetta japanska (ja, asíska) par sem var í gríð og erg að taka myndir af matnum sínum.

Ég fékk sæti við hlið annars japansks (ja, asísks) pars. Þetta var óvenju frítt fólk sem ég hafði fengið sæti við hliðina á. Ungi maðurinn geislaði af ró. Hann sat bara með hendur í kjöltu og beið eftir að kærasta hans, sem átti erindi í símann sinn, væri tilbúinn að einbeita sér að því að panta mat. Hún var upptekin svo ég held að hann hafi á endanum pantað mat fyrir þau bæði. Þau sögðu ekki margt hvort við annað, hún kommenteraði af og til það sem hún sá á símanum sínum en hann virtist ekki sérlega áhugasamur um það. Kinkaði kolli í rólyndi sínu. Og svo kom maturinn og þá var síminn hennar notaður til að dokúmentera hvað þau ætluðu að láta ofan í magann á sér. Það voru engin takmörk hvað var hægt að taka myndir af matnum úr mörgum mismunandi sjónarhornum. Ég velti fyrir mér hvers vegna það væri svona mikilvægt fyrir þetta fallega fólk og ja, eiginlega alla sem sátu á veitingahúsi að taka myndir af matnum sem borinn er fram. Er þetta til að muna hvað maður borðar þetta tiltekna kvöld á veitingastaðnum? Eða er þetta til að minna sjálfan sig og aðallega aðra á hvaða lífsstíl sá sem tekur myndina hefur valið. Sennilega er mikilvægt að minna fólk á það.

Nú hef ég tekið mynd af kaffibollanum mínum, mínum síðasta kaffibolla í þessari ferð minni til Parísarborgar, (sjá mynd) sem vitnisburð um lífsstíl langleggjaðs Íslendings. Það má örugglega gera sér í hugarlund hvernig maður þetta er sem drekkur slíkt kaffi; hann er ekki í gulu vesti. Hann klæðist svartri skyrtu. Hann er líka með svört gleraugu á nefinu vegna aldurssjóndepru og þótt þau séu úr plasti hafa þau rétt form fyrir þann lífsstíl sem endurspeglast í kaffibollanum á borðinu fyrir framan hann.

ps. er kominn til CDG-flugvallarins eftir mína fyrstu ferð með UBER-leigubíl. Sem betur fer flýg ég með Airbus flugvél svo ekki verða tafir á fluginu.

pps. Ég fékk senda í gær bók eftir Lilju Sigurðardóttur sem ég var beðinn um að lesa. Bókin heitir Búrið og ég er hálfnaður með bókina enda fljótlesin. Ég veit ekki hvort ekki sé allt í lagi með mig en nú hef ég lesið bækur eftir Yrsu, Ragnar Jónasson og Lilju Sigurðardóttur og mér finnst þær eiga það sammerkt að ég trúi bara ekki á plottið í bókunum. Í bók Lilju – sem er alveg ágæt spennubók, þannig – er í mínum augum svolítið um ótrúverðug atriði. Kannski er ég bara svona skeptískur gaur. Hmmm.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.