Espergærde. Hinn safalausi lestur

Ný skipan mála hér á þessum bæ frá og með deginum í dag. Dagbók dagsins verður frá og með þessari stundu ekki fyrsta verk dagsins eins og venjan er. Nú ætla ég að nota ferska morgunkraftana í þau verkefni sem ég hef tekið að mér, eru á minni könnu. Ég hef dregist aftur úr og framundan er ferð til Íslands á mánudag og þá dregst ég enn lengra aftur úr. Ég kom sem sagt heim í gær frá París. Ég náði að klára að lesa glæpasögu Lilju Sigurðardóttur (Búrið, heitir hún (aðalpersónan er í fangelsi í upphafi bókar og svo er einn karlmaður geymdur í búri, þess vegna nafnið held ég.) Ég las auk þess verðlaunabók Sigrúnar Eldjárn, Silfurlykillinn, til enda á ferðalaginu, en ég hafði byrjað á henni fyrir nokkru). Ég get sagt bók Lilju til hróss, þótt hér sé ekki um neitt stílafrek að ræða, að sagan rennur nokkuð lipurlega. Að öðru leyti get ég því miður ekki vikið mörgum lofsorðum að bókinni. Mér fannst ansi margt langsótt í sögunni. Ég var að því kominn að gefast upp á lestrinum en herti upp hugann og kláraði bókina. Ég hafði lofað að lesa bókina. En ég er glaður fyrir hönd Lilju að glæpasagnaaðdáendur hafa margir verið ánægðir með söguna og bókin er seld til útlanda og fengið verðlaun. Bókin fellur bara ekki að mínum smekk. Ég varð líka nokkuð hissa á bók Sigrúnar Eldjárn (mér finnst ekki gaman að vera neikvæður). En textinn var ansi þunnur þrettándi, tónn sögumanns fór svolítið í taugarnar á mér og söguefnið fannst mér ekki sérlega áhugavert. Margar af teikningunum fannst mér fínar. Verðlaunanefnd íslensku barnabókaverðlaunanna er væntanlega ekki sammála mér (skiptar skoðanir sem sagt), því bókin var valin bók ársins. Ég veit ekki á móti hvaða bókum Sigrún var að keppa, en þær hafa að mati dómnefndarinnar ekki verið eins góðar og Silfurlykillinn. En ég vona hins vegar að íslensk börn fái það sem mér finnst safaríkari bækur til lesturs í ár.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.