Espergærde. Sproti þinn og stafur

Sproti þinn og stafur. Þessi orð komu í huga mér þegar ég stóð úti í glugganum á skrifstofunni minni. Ég horfði á byggingaframkvæmdirnar handan götunnar. Það var ekki svo mikið um að vera hjá verkamönnunum með hlífðarhjálmana. Þeir voru á vappi. Ofar í götunni kom ég auga á svartklæddan mann sem rölti niður götuna. Hann hafði sérstakt göngulag, vaggaði í hverju skrefi og hann studdi sig við göngustaf. Og þá komu þessi orð til mín: sproti þinn og stafur. Sproti þinn og stafur hugga mig.

Ég hef svo sem oft séð þennan mann á göngu, þetta er eldri herramaður með svarta derhúfu og er í látlausum göngutúr. Ég sé hann oft þegar ég geng út á akrana um helgar og þá mætumst við stundum. Hann er með grátt yfirskegg. Hann heilsar vinsamlega og af lítillæti. Stundum sé ég hann á tali við eldri konu, þá staldrar hann við á göngu sinni og er allur tvístígandi á meðan samtalið við gömlu konuna fer fram. En hann hefur göngustaf þessi maður en ég veit ekki hvar sprotinn kemur inn í myndina. Ekki kallar maður göngustaf sprota?

Hér handan götunnar eru ekki bara byggingarframkvæmdir heldur er líka sambýli fyrir fólk sem á við einhverja erfiðleika að stríða, andlega erfiðleika. Þótt ég viti ekki nákvæmlega hverjir eru vistmenn á þessu heimili eru nokkrir einstaklingar sem fara hér fram hjá glugganum mínum sem eiga á einhvern hátt erfitt með göngu eða hafa sérstakt göngulag sem ég tengi alltaf við þetta heimili. Oft endurspeglast hinir andlegu erfiðleikar í göngulagi. Ég er þó viss, að maðurinn með stafinn og sprotann býr ekki á vistheimilinu.

Ps. Viðvörun: er á leið til Íslands og er búinn að kaupa miða leikhúsið til að sjá Friðgeir Einarsson leika í leikritinu eftir hann sjálfan Club Romantica.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.