Espergærde. Hljóðbók hægri bakvarðarins

Ég var vakinn af kettinum mínum, Gattuso, klukkan 5:20. En hann er farinn að taka upp á því að klifra upp á svalir (svefnherbergið mitt liggur út til svalanna) og mjálma fyrir utan eldsnemma morguns. Ég lét sem ekkert væri og reyndi að halda áfram að sofa. Ég hleypti honum ekki inn. En ég gat ekki sofnað aftur sama hvað ég reyndi og því var ég kominn á fætur fyrir klukkan 6:30 á laugardagsmorgni.

Stríðskötturinn Gattuso

Við Davíð erum einir heima yfir helgina; Sus í Horsens og Númi í bekkjarferðalagi í sjálensku sumarhúsi við hið norðvestlæga Gilleleje.

Ég tók upp á því að hefja að hlustun á hljóðbók Hallgríms Helgasonar, Sextíu kíló af sólskini (höfundur les) í gær. Ég forlas bókina hans fyrir jól en ég sá að hljóðbókin kostaði litlar 490 ikr svo ég stökk til, hljóp út í fatahengi, fór í jakkavasann minn, veiddi upp svarta seðlaveskið mitt þar sem ég geymi VISA-kort í minni eign, dró það upp úr vasa sínum, hljóp til baka og stimplaði öll kortanúmerin inn á vef Forlagsins og fékk þremur sekúndum síðar bókina senda í símann minn. Nú elda ég mat, geng langa göngutúra með gamla hægri bakverði Fram (5. flokkur) á meðan hann les fyrir mig. Hallgrímur les alveg stórkostlega vel sinn eigin texta um baráttu kotbónda á Íslandi. Ég hlæ stundum á stöðum þar sem ég hló alls ekki neitt þegar ég las sjálfur. Svona er stundum gott að skipta um lessjónarhorn.

Ég minnist á knattspyrnuferil Hallgríms, sem hann stundaði ef ég man rétt undir leiðsögn Svenna vinkils, því fleiri skáldmenni haf komið í huga minn sem eiga að baki sér hálfglæstan fótboltaferil. Skáldið Albert Camus sem ég minntist á í gær út af óvæntum fundum sem ég átti með fegurðardrottningu sem las Camus á ferðum sínum. Ég hef heyrt sagðar miklar sögur af afrekum hans [Alberts Camus sem sagt) á fótboltavellinum; að hann hafi verið stórkostlegur markmaður, hann hafi leikið með algerska landsliðinu, PSG og alls konar. Til eru fótboltatreyjur með prentað nafn skáldsins á bakhlið treyjunnar auk númersins 1. En það er ekki satt þetta með glæstan fótboltaferil. Hið sanna er að Camus hætti að spila fótbolta þegar hann var 18 ára, (eftir einhverja lungnaveiki) og náði aldrei sérlega langt; spilaði nokkra leiki með unglingaliði Racing Universitaire Algerios áður en hann lagði skóna á hilluna. Hann eignaðist aldrei markmannshanska.

ps. Sá rithöfundur sem hefur náð mestum frama á fótboltavellinum er sennilega norski rithöfundurinn Jo Nesbø sem ungur gerðist atvinnumaður í fótbolta og þreytti frumraun sína með meistaraflokki norska stórliðsins Molde aðeins 17 ára gamall var gífurlegt efni; leikinn, fótafimur og skotfastur. Hann var snemma kominn undir smásjá enska fótboltaliðsins Tottenham. En Jo Nesbø var óheppinn. Hann var sparkaður niður á æfingu með Molde svo hann eyðilagði á sér bæði hnén og ekkert varð úr samningnum við Tottenham. (Þar missti Tottenham af efnilegum pilti.)

Er það ekki rétt munað hjá mér að Einar Kárason hafi spilað mörg ár í fremstu sóknarlínu Fram og myndað gífurlega öflugt tríó með Kristni Jörundssyni og Pétri Ormslev á árunum 1980-82? Og að Steinar Bragi hafi verið einn efnilegasti miðjumaður knattspyrnufélagsins Fylkis og var oft borinn saman við Akureyringinn Þorvald Örlygsson sem var um líkt leyti á hátindi frægðar sinnar og að Auður Jónsdóttir hafi leikið fótbolta með öllum yngri flokkum Aftureldingar? Ég veit ekki hvaða stöðu hún mun hafa leikið en ég sé hana helst fyrir mér sem markvörð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.