Reykjavík. Samtöl

Ég lenti á Keflavíkurflugvelli um fjögurleytið í dag og var hissa á þrennu á meðan ég keyrði inn flugbrautina í Boeing vél Icelandair: hinu gífurlega regni sem steyptist af himni, hinu hvínandi roki sem var við að feykja vélinni af flugbrautinni og að sjá fjólubláa flugvél WOW-air fara á loft. Mér fannst einhver veginn allt væri búið hjá WOW og furðulegt að þeir hæfu sin enn á loft og væru á leið til útlanda með farþega. Áttu þeir peninga fyrir nægu bensíni til að komast á áfangastað?

Ég þurfti að drífa mig í Hvalfjörð til að aðstoða eldhússmiði og því lá mér á. Ég hafði að vísu lofað þeim að kaupa lax, smjör og rækjur. Ég stoppaði því í Bónusbúð í Keflavík rétt við þjóðveginn. Þetta var drusluleg búð og óskipulögð.

Í flýti mínum fann ég til að byrja með ekki smjör og spurði því ungan dreng ráða: „Fyrirgefðu, hvar hafiði smjör?“
„Smjör? Hvernig smjör?“ svarar drengurinn án þess að líta á mig sem mér þótti sérkennilegt.
„Íslenskt smjör.“
„Við seljum ekkert útlent smjör.“
„Hvar er íslenska smjörið?“
„Í neðstu hillunni … þarna.“ Hann benti langt inn í búðina og ég gekk á eftir bendingarlínu fingursins. En kom ekki auga á neitt smjör fyrr en eftir langa leit. Þetta var ekki til að bæta mitt geð. Og svo hófst leitin að rækjum. Ég ákvað að spyrja annan starfsmann en þann síðasta því ég fann bara ekki rækjur. Ég fann lax, harðfisk, hrogn, ýsu, silung, fiskbollur í dós … bara engar rækjur og því varð ég að leita aðstoðar þótt mér væri það þvert um geð. Ég var bara á mikilli hraðferð.

„Fyrirgefðu. Hvar eru rækjurnar?“
„Hvernig rækjur.“ Það var eins og öllum starfsmönnum Bónus væri uppálagt að spyrja alltaf „hvernig“… hvernig smjör, hvernig mjólk, hvernig rækjur…
„Rækjur … hvað meinarðu hvernig rækjur?“
„Já, hvernig rækjur?“
„Hvað á ég segja? Handpillaðar? Ekki í skel? Bara sjávardýrið rækjur meina ég.“
„Það er allavega einhverjar frosnar þarna í frystinum.“
„Þú átt ekki ófrosnar?“
„Ég veit það ekki.“

Svona voru samtölin mín við tvo starfsmenn Bónus í dag. Ég minnist á þetta hér vegna þess að ég hlusta á Hallgrím lesa Sextíu kíló af sólskini og hann leikur öll samtöl svo skemmtilega að ég skellihlæ að samtölum sem mér fundust ekkert sérstaklega fyndin á prenti.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.