Keflavíkurflugvöllur. Hitt fólk 3

Þótt ég hafi verið nokkra daga á Íslandi hef ég ekki verið í námunda við sérlega marga. Dagar í sveitinni með smiðum og múrurum. En nú er ég kominn út í hálftóma flugstöð. Hér vantar alla farþega WOW og því var engin röð við vopnaleitina, engin röð við samlokusöluna hjá Jóa & ávaxtasafanum, greið leið að afgreiðsluborðinu í Eymundsson. Hér er sem sagt rólegt. En áður en ég birti lista yfir hitt fólk vil ég benda á að bókin Hinn grunaði hr. X eftir Keigo Higashino er enn einu sinni númer 1 (#1) á metsölulista Eymundsson þegar ég á leið um bóksöluna (sjá mynd).

Glæpasagan Hinn grunaði herra X. Efst á metsölulista flughafnarinnar.

Listi yfir hitt fólk (hér er fjölskylda mín ekki með á lista.)
Jón Karl Helgason: Löngu skipulagður fundur á Kaffi Vest þar sem fundarefnið var: eftirvænting. Ég er heppinn að þekkja mann eins og Jón Karl, það hugsa ég alltaf, bæði þegar ég hitti hann og þegar ég hugsa til hans.

Sigrún Pálsdóttir: Kvöldmatur á Matbar og skyndilega er einhver sem strýkur létt yfir öxlina á mér: „Er þetta ekki Snæbjörn.“ Og þarna yfir mér stóð sagnfræðingurinn og rithöfundurinn, Sigrún Pálsdóttir í grárri peysu. Umræðuefnið: möguleikar rithöfunda og fræðimanna til útgáfu bóka sinna utan landssteina.

G. Pétur Matthíasson. Fjölmiðlafulltrúi Vegagerðarinnar var að koma frá París eftir rómatíska borgarferð með eiginkonu sinni. Við urðum samferða niður tröppurnar í flugstöðinni á leið til landsins. Umræðuefni Parísarborg snemma vors og blómi kirsuberjatrjáa.

Kristján B. Jónasson. Sveitadrengurinn úr Skagafirði var staddur á Reykjavík Roaster ásamt félögum sínum og við ræddum stuttlegar horfur í ferðamálum auk annarra samtalsefna sem við höfum rætt síðast liðin tíu ár.

Sæmundur Norðfjörð: Heilsaði honum bara lítillega.

Ekki man ég eftir að hafa hitt fleiri. En ef ég hef gleymt einhverjum bið ég hinn sama velvirðingar. Minnið verður gloppótt með aldrinum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.