Espergærde. Ég um mig frá mér til mín.

Stundum get ég æst mig óskaplega með sjálfum mér yfir ummælum einhverra sem ég er ósammála. Í morgun fussaði ég yfir viðtali við unga konu sem hefur skrifað afar vinsæla bók um líf sitt. Þar lýsir hún barnæsku sinni og telur að foreldrar sínir – miklir smáborgarar að hennar mati – hafi gert líf hennar bæði meðvitað og ómeðvitað að ömurlegri þrautagöngu allt frá því að hún fæddist með sínum þegjandi ásökunum og ástleysi. Ég ætla ekki að gerast dómari í þessum fjölskylduharmleik en ég verð að viðurkenna, eftir að hafa lesið viðtalið við skáldkonuna og bætt við eigin kynnum af þessari sömu konu, að það hvarflaði að mér að stundum sé fólk töluvert sjálfhverft og hafi undarlega þröngt sjónarhorn.

Ég minnist á þetta hér þar sem datt ofan í aðra grein þar sem hagfræðingur nokkur bölsótast yfir sjálfhverfu „móðgunargjörnu“ kynslóðarinnar sem hann kallar svo. Þá á hann við fólk sem hefur fæðst eftir 1970 sem lítur á efnahagslega velmegun sem nokkuð sjálfsagða og næstum leiðinlega og óspennandi. Velferðarkerfið virðist setjast á sjóntaugina, segir hann, og fólki finnst sjálfsagt að aðrir greiði, aðrir en það sjálft borgi fyrir þá þjónustu sem það telur svo sjálfsagða. Það vil bætur, styrki, aðstoð og stuðning en vill sjálft ekki leggja svo margt að mörkum; það krefst umhverfisvitundar, en um leið góðrar samvisku á leið sinni í fríið til Tenerife … En það eru aðrir sem skulu greiða; t.d. bankarnir, stórfyrirtækin og allir þessir svartklæddu svindlarar, þessi ríku svín. Um leið er óskin heit um að ríku svínin tapi öllum sínum peningum. Vandinn, segir hann, er bara hver á þá að borga allan þennan lífsstuðning hinnar velsælu kynslóðar sem hefur svo áreynslulausa réttlætiskennd.

Þetta les maður á meðan morgunkaffið kólnar og veltir fyrir sér hvort það geti verið rétt að fólk sé orðið jafn sjálfhverft og þessi hagfræðingur vill halda fram. Ég skal ekki segja um það. Ég sit bara hljóður við eldhúsborðið, kaffið er löngu orðið kalt og fussa inn í sjálfum mér.

ps. Ég gat samt ekki annað en hlegið þegar ég las að skáldkonan sem ég minntist á í upphafi – sem hingað til hefur ekki notið neinnar söluvelgengni með fyrri bækur sínar – sagði að nú hefði hún farið fram á það við sambýliskonu sína til margra ára, að héðan í frá hafi þær aðskilinn fjárhag. Bók hennar hefur nefnilega selst í meira en 130.000 eintökum og á eftir að færa henni tugmilljónir í höfundalaun; og þeim peningum er hún ekki tilbúin að deila með eiginkonu sinni. Hmmm. Kom ekki einhvern tíma út skáldsagan: Ég um mig frá mér til mín?

pps. fékk bréf frá íslenskum forlagsstarfsmanni í gær sem sagði mér frá horfum á íslenskum bókamarkaði. Það gladdi mig að forlag starfsmannsins ætlaði að gera sérstakt átak í útgáfu barnabóka og vekja sérstaklega áhuga á barnabókum í haust. Þetta þakkaði starfsmaðurinn hinum nýja stuðning menntamálaráðuneytisins og Lilju Alfreðsdóttur við bókaútgáfu. Ég er alltaf jafn sannfærður um að þetta sé leiðin fyrir bókaforlög. Að hlúa að lestri barna.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.