Espergærde. Auðmagnseigendur.

Nú er ég, hinn síðhærði auðnuleysingi, allt í einu kominn á bólakaf og vinnuálagið þyngist. Þrjú ólík verkefni eru í vinnslu og nú hef ég allt í einu mjög strangan afhendingartíma, 10. maí. Ég finn fyrir auknum þrýstingi og vann í gærkvöldi fram á nótt.

Morguninn í morgun var þó eyðilagður fyrir mér því HERTZ bílaleigan gerði mér óleik og ég hef eytt síðustu klukkutímum í að reyna að leiðrétta mistök bílaleigunnar sem hafa valdið mér hugarangri í gær og dag. (Ég uppgötvaði í gær að ég hafði borgað fyrir tvo bíla á meðan ég var á Íslandi en ég notaði auðvitað bara einn. Þetta er flókin saga og með ólíkindum.)

Ég las íslenskt dagblað í morgun og sá að forsvarsmaður verkalýðshreyfingarinnar kallar verkfallsátökin barátta milli stétt­ar verka­fólks og stétt­ar auðmagnseig­enda. Það er langt síðan ég hef heyrt þessa orðanotkun: „auðmagnseigendur.“ Þetta er talsmáti sem tíðkaðist fyrir mörgum árum, kannski meira að segja fyrir kaldastríðið. Menn nota þau vopn sem tiltæk eru.

Það er líka merkilegt að sjá að foringi verkalýðshreyfingar klæðist gulu vesti, sambærilegu því sem óánægjuhópurinn í Frakklandi klæðist. Sá hópur varð í upphafi til vegna þess að hópnum ofbauð hækkandi bensínverð en er nú fyrst og fremst safn óánægðra einstaklinga með óljós markmið.

p.s. Á morgun klukkan 10:30 ætla ég að vera tilbúinn við skrifstofugluggann minn með myndavélina því þá hjóla væntanlega hér fram hjá eldri hjón. Hún á undan og hann á eftir. Hann hefur bæði með sérkennilegan hjólastíl, þar sem höfuðið vaggar ægilega um leið og hann stígur á pedalana, og hund í hjólakörfu. Hjónakornin þeysa framhjá skrifstofuglugganum mínum hvern morgun.

HRÞS: 380,698 -> 393,637
FBB: 0

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.