Espergærde. Lotinn yfir ársreikningum

Ég var að klára í gær bók Pierre Lemaitre, Þrír dagar og eitt líf. Ég lá í rúminu mínu og það var komið kvöld, já, það var víst komið nokkuð inn í nóttina þegar ég las síðustu línu bókarinnar og ætlaði að fara að slökkva á náttlampanum. Fyrr um kvöldið hafði ég spilað tennis og var því svolítið aumur í mínum gamla kropp. Á slíkum kvöldum – þ.e. eftir að hafa stundað keppnisíþróttir af einhverjum toga – á ég erfitt með að fá ró í líkamann (og kannski sálina) og sofna. Það var þess vegna sem ég greip símann minn sem lá á náttborðinu (þótt komið væri fram yfir venjulegan háttatíma) til að athuga hvort eitthvað væri að frétta frá heiminum. Akkúrat á því augnabliki sem ég tek símann á loft rennur tölvubréf inn í póstforritið með yfirskriftinni Sex heimspekilegar spurningar (spurningarnar reyndust sjö en voru skakkt tölusettar). Auðvitað vakti þessi yfirskrift tölvubréfs athygli mína.

Sendandi bréfsins er ágætur kunningi minn. Hann leggur ekki vana sinn í að skrifa mér bréf en gerir það þó stundum mér til ánægju. Mun ég hafa vakið einhverjar af spurningunum með skrifum mínum í dagbók gærdagsins. Það sem vakti nokkra furðu hjá mér – og undrunina skrifa ég á að ég hef verið búsettur svo lengi í útlöndum að ég er ekki alveg í takti við hugsanagang íslensks menntamanns í hverfi 101 í Reykjavík – hve alþingismaðurinn Sigmundur Davíð er bréfritara hugleikinn. Ég hef tekið eftir því áður hve menntafólki í bæjarhluta merktum 101 er þessi maður ofarlega í huga. Ég var fluttur af landi brott þegar stjarna hins feitlagna alþingismanns fór að rísa og því hef ég ekki sömu tilfinningahlöðu skoðun á manninum og margir virðast hafa.

Ég hyggst velta fyrir mér spurningum bréfritara í dag og taka heimspekilega afstöðu til þeirra og svara síðar í dag.

Í dag þarf ég að sinna félagsstörfum. Ég er í skipulögðum félagsskap og í fjarveru minni á síðasta aðalfundi var ég valinn til að vera „innri endurskoðandi samtakana“. Það er auðvitað fráleit hugmynd að láta mig endurskoða eitthvað. Ég hef enga hæfileika til þess. En ég verð samt að sinna þessari skyldu sem lögð hefur verið á mínar herðar og mun ég dvelja næstu þrjár klukkustundir á skrifstofu í öðru bæjarfélagi; Hørsholm. Ég segi bara eins og skáldið: Bjartur aprílmorgunn, lotinn yfir ársreikningunum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.