Espergærde. Að tala beint frá hjartanu.

Það er eitthvað mikið um að vera finnst mér. Í gær fékk ég tölvupóst frá manni sem ég hef hvorki séð né heyrt frá í meira en tuttugu ár. Skilaboðin voru stutt og einföld: „Gætirðu hringt í mig. Síminn er xxxxxx, með góðri kveðju xxxx.“ Ég hikaði, og frestaði að hringja því mér er ekkert sérlega vel við að tala í síma og þar að auki þekkti ég manninn ekki svo vel. En auðvitað var ég forvitinn að heyra hvaða erindi hann átti við mig. Ég hringdi í gærkvöldi en fékk ekkert svar. Og nú bíð ég eftir að heyra frá manninum og hvaða erindi hann á við mig. Satt að segja er ég svo órólegur yfir þessum skilaboðum að ég get eiginlega ekki almennilega einbeitt mér að neinu fyrr en ég hef fengið skýringu á þessum tölvupósti. Það liggur í loftinu að erindið sé brýnt.

Ég var svo í gærdag rækilega minntur á að það eru einhverjir sem lesa dagbókina yfir öxlina á mér. Ég geri mér auðvitað grein fyrir að þessi dagbók mín, Kaktusinn, sé lesin og því verð ég að fara varlega þegar ég nefni annað fólk. (Að vísu fékk ég örlítið kapp á bakið frá lesanda Kaktusins: „Þú talar skemmtilega óvarlega, eða ætti maður að segja ólöglega, skeytir ekki um rétttrúnað og ritskoðun hans.“) Mér þótti þetta auðvitað notalegt að heyra, því ég kæri mig ekki um að vera heftur af áliti annarra, en ég hafði ekki lengi baðað mig í þessu hóli þegar ég fékk annan tölvupóst frá manni sem var alls ekki ánægður. Hann hafði lesið frásögn mína af heimsókn minni til franska rithöfundarins Houllebecq fyrir nokkrum vikum og spurði með þjósti hvort ég hefði fengið leyfi hjá höfundinum að lýsa fundi okkar. Honum fannst ég hafa farið yfir einkalífsmörkin. Þar var ég manninum ekki sammála því ekkert sem ég segi í frásögninni skaðar skáldið. Allt sem ég segi hefur komið annars staðar fram á opinberum vettvangi; áhugi hans á víni, sígarettum, vatni. Hvar mörk einlífs annarra liggja er auðvitað atriði sem ég hugsa oft um þegar ég skrifa þessa dagbók og hef engan áhuga á að troða öðrum um tær, meiða eða skaða. Spurningin er bara hvað er leyfilegt að segja um aðra á opinberum vettvangi er bara flókin. Má maður nefna þeir reykja? Má maður nefnda að þeir drekki vín? Má maður segja að þeir séu lágmæltir? Það sem mér þykir saklaust og skaðlaust þykir öðrum kannski dónaskapur. Þetta þurfti Knausgaard glíma við þegar hann skrifaði Min kamp en hann ákvað að setja nánast engin mörk. Hann bara skrifaði. Það hafði sínar afleiðingar.

Í gærmorgun kom í heimsókn til mín kona sem ég þekkti ekki. Hún bara hringdi á bjöllunni hjá mér því hún átti erindi við mig og Sus. Ég ætla ekki að tala um erindi hennar hér, ekki vegna þess að ég væri að brjóta af mér gagnvart konunni heldur var erindi hennar svo flókið og sagan náði svo langt aftur í tímann að ég held að ég láti nægja að minnast á að kona hafi heimsótt mig á Søbækvej. Þetta var ein af eftirminnilegri heimsóknum sem ég hef fengið. Eitt af því sem hún sagði, og endurtók svo oft, situr í mér. Ekki af því að ég hef ekki heyrt slíkt sagt áður heldur vegna þess hve mikilvægt þetta var fyrir hana. „Ég tala beint frá hjartanu.“

Að tala beint frá hjartanu þykir mér eftirsóknarvert.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.