Espergærde. Að gera sér ómak

Í dag, og í gær og á morgun, er gestur á heimilinu hér á Søbækvej. Ung þýsk kona, sem við hittum stuttlega á ferðum okkar um Tanazaníu fyrir sex árum, hafði samband við okkur í síðasta mánuði og spurði hvort hún mætti heimsækja okkur til Danmerkur. Beiðnin kom okkur auðvitað á óvart, en eins og við mundum eftir konunni eða stúlkunni var hún bæði skemmtileg og góð. Og nú er gistir hún hér og er mikill auðfúsugestur.

Í gær afkastaði ég satt að segja engu, ég var einhvern veginn svo óeinbeittur og ringlaður. Ég snerist bara í kringum sjálfan mig. Ég held að ég hafi þýtt hálfa síðu, og ég er enn miður mín yfir því, svo ég áætla að vera mjög duglegur nú um helgina þrátt fyrir gestagang.

Í gær vorum við í matarboði, sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi nema fyrir þá sök að gestgjafarnir mundu hvað mér þykja lakkríspípur góðar svo þau höfðu keypt miklar birgðir af Skippers lakkríspípum til að færa mér. Þetta þótti mér óvenjulega fallegt vinarbragð, og mikil hugulsemi sem þau sýndu. Ég varð hálfsnortinn yfir því hvað þau lögðu sig fram um að gleðja nefstóran Íslending. Ég kann svo sannarlega að meta að fólk geri sér ómak til að gleðja mig.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.