Espergærde. Skrauthopp langhlauparans

Á morgun legg ég í langferð, alla leið til New York og Boston, og því hef ég þurft að sinna ýmsu sem ég þarf að vera búinn með áður en ég legg í hann. Ég verð í burtu í næstum tvær vikur og mitt brýnasta verkefni er að finna rétt lesefni fyrir ferðina. Ég er búinn með ágæta bók Pierre Lamaitre, Eitt líf og þrír dagar í fyrirtaksgóðri þýðingu Friðriks Rafnssonar. Ég er enn að hlusta á Hallgrím lesa bók sína Sextíu kíló af sólskini. Hann les vel og bókin verður mun betri í hans lestri en mínum. Mér fannst hún stundum of orðmörg um of lítilsverða hluti þegar ég las hana; mikil orðaleikfimi sem stundum verkaði á mig sem furðuleg balletspor eða ballettdans langleggjaðs langhlaupara í gegnum sitt mikla maraþonhlaup. En þessi skrauthopp textans í bókinni njóta sín betur í lestri Hallgríms en mínum eigin þögla þumbaralestri.

En hvað ætti ég að lesa á langferð minni? Ef einhver hefur góða tillögu hlusta ég. Mig langar að lesa eitthvað á íslensku; frumsaminn íslenskan texta eða íslenska þýðingu á einhverju skemmtilegu. Ég velti vöngum í dag yfir þessu verðuga verkefni. En ég á möguleika á að kaupa bók í bóksölu flugvallarins í Keflavík – ég millilendi í Keflavík – um leið og ég endurraða metsölulista búðarinnar. Lyfti minni heittelskuðu þýðingu Hinn grunaði herra X, aftur upp í fyrsta sæti metsölulistans, yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.