Kastrup. Greifi, sendiherra og matreiðsla góðra rétta

Mér þætti kannski ekki gaman að borða uppáhaldsréttinn minn á hverjum degi, þótt mér þyki hann eins og gefur að skilja góður; besti matur sem ég fæ. Það er skrýtið að maður verður fljótt þreyttur á því sem er gott, jafnvel frábært.

Ég minnist á þetta hér þar sem ég er á leið til New York og Boston og hef valið tvær bækur til að hafa meðferðis, báðar eftir góða rithöfunda. Í fyrsta lagi er það hin stórkostlega bók Alexanders Dumas Greifinn af Monte Cristo. Bókina hef ég lesið einu sinni fyrir nokkrum árum og nú langar mig að lesa hana aftur. Hin bókin sem ég vel með mér í ferðina er bók Braga Ólafssonar, Sendiherrann. Ég gafst upp á henni eftir að hafa lesið nokkuð áleiðis inn í bókina á sínum tíma. Mér leiddist hún þá, en nú er ég tilbúinn að gefa bókinni annað tækifæri. Kannski var eitthvað að trufla mig þegar ég las bókina síðast. Kannski var ég orðinn leiður á þeim fína rétti sem Bragi var búinn að leggja á borð fyrir mig áður, kannski of oft áður.

“Allar samlíkingar við mat fannst Sturlu ósmekklegar, ekki síst þegar talað var um list eins og hennar væri neytt líkt og fæðu ….” Yo!

Aftur er ég staddur í flughöfninni í Kastrup og flýg brátt af stað til Bandaríkjanna með millilendingu á Íslandi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.