New York. Hreyfifræði hljóðs

Hér sit ég á tuttugustu og annarri hæð í stól við borð í hálfgerðri Batmaníbúð og það er víst kominn morgunn hjá mér. Í mínum huga kom morgunn fyrir fimm klukkustundum þótt úrið á úlnliðnum segi að nú sé árla morguns; sex núll þrjár að morgni. Ég er búinn að líta út um gluggann til að staðfesta fyrir sjálfum mér að ég sé staddur á þessum best skipulagða bletti Bandaríkjanna, Manhattan-eyju. Jú, við mér blöstu háhýsi sem spegluðu í gljáfægðum gluggaveggjum sínum önnur háhýsi. Og sjálfur er ég hátt uppi. En þó ekki nógu langt frá götuhávaðanum því í nótt heyrði ég flaut bílanna í næturrökkrinu alla leið niður frá götunni. Ég held að gatan hljóti að vera 400 metrum neðar ef ég er á tuttugustu og annarri hæð. Getur það ekki passað?

Í andvöku minni, undir þotulakinu, yfir þokulakinu, með þokulakið milli fóta mér og yfir hausnum, barst umferðarniðurinn neðan frá 57. stræti alla leið upp til mín svo ég álykta sem svo, þótt ég haldi að það sé alger della, að hljóð leiti upp á við eins og hiti. Streymi með hraða hljóðsins upp á við. Ég man ekki til þess að hafa heyrt svona greinileg bílflaut frá bílum í 70 metra fjarlægð þegar ég dvel nær jörðinni.

ps. Mig dreymdi Jón Kalman, þá fáu tíma sem ég svaf. Hann var kominn með gífurlegan hármakka, rauðan, sem náði niður á bak og var bundinn saman í tagl með brúnni leðuról sem hann margvafði utan um hnakkalokkana. Mér fannst þessi nýi stíll ekki fara honum sérlega vel og hann var kominn með einhvern svip sem ég átti erfitt með að lesa. Mér datt meira að segja að hann væri undir áhrifum eiturlyfja.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.