New York.

Ég sá sýningu leikflokks hér í New York á verki J.K. Rowling um Harry Potter þegar hann er orðinn fullorðinn og hefur eignast dreng sem er að hefja nám í Hogwartskóla. Harry Potter and the Cursed Child. Ég held að ég hafi sagt það þúsund sinnum að ég er mikill aðdáandi J.K. Rowling sem rithöfundar (ég veit ekkert um persónu hennar en hún virkar ekki á mig sem sérlega viðkunnanleg mannvera með allar hennar lögsóknir og öll þau vandræði sem er að semja um útgáfurétt á bókum hennar.) En sýningin var ansi flott. Svakalegar tæknibrellur sem ég hef aldrei fyrr séð í leikhúsi og öll nýjustu trikk í töfrafræðinnar er nýtt á sviðinu. Þetta er ansi áhrifamikið. Sýningin var í tveimur hlutum og tekur meira en fimm klukkustundir í flutningi.

Kannski ekki sérlega heppilegur dagur að fara á svo langa leiksýningu þegar maður er frekar illa haldinn af flugþreytu (jetlag). En sýningin var svo fjörug að mér tókst að halda heilanum vakandi alla sýninguna.

Í Harry Potter leikhúsinu.

En nú er nýr dagur í Bandaríkjunum. Sólin nær ekki að brjótast fram úr skýjunum en hér er vorið komið lengra en í Danmörku. Laufin að springa út og grasið að grænka.

ps. er að klára bók Braga Ólafssonar Sendiherrann. Bókin fer mun betur í mig nú en fyrir nokkrum árum þegar ég reyndi að lesa hana. Ég man að Charlotte, sem útgaf bókina á dönsku hjá L&R, sagði við mig á sínum tíma að hún hefði séð eftir að hafa gefið út bókina, þar sem henni þótti hún svo geðveikilega leiðinleg. En hún var á þeim tíma í leynilegu ástarsambandi við þýskan forleggjara sem hafði keypt þýska útgáfuréttinn að bókinni og hún tók hann, og hans bókasmekk, mjög til fyrirmyndar og keypti oft sömu bækur til útgáfu og hann. Ég er ekki sammála að bókin sé leiðinleg, en ég skil svo sem fólk sem hefur ekki þolinmæði fyrir textaflæði Braga, það er ekki fyrir alla. Ég hef satt að segja bara frekar gaman að bókinni þótt mér þyki Sendiherrann ekki með bestu bókum höfundarins.

Ég gat hins vegar ekki beðið með að byrja á Greifanum af Monte Cristo, það er aldeilis fín skemmtun.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.