New York. Umbúðaprentsmiðjan

Mig hefur lengi dreymt um að fara með lest í norðurátt frá Manhattan, i gegnum Harlem og lengra upp út í sveitina meðfram Hudsonánni. Ég hafði heyrt konu, sem ég kannast við, lýsa þessari lestarferð upp með ánni og enda í Beacon-dalnum þar sem Dia safnið er með hinum sögufrægu Richard Serra stálskúlptúrum (stórkostlegir).

Í morgun létum við verða af því að taka lestina til Beacon og þessu ferðalagi gleymi ég ekki. Safnið, sem er risavaxið var stofnað árið 2003 eftir að gömul umbúðaprentsmiðja, sem þar var til húsa lagði upp laupana. Verksmiðjuhúsnæðið var gert upp með safnið í huga. Þetta er stórfengleg, risavaxin bygging; hátt til lofts og þakgluggar veita birtunni inn. Ekki spillti fyrir að nánast engir gestir voru í þessu mikla flæmi.

Byggingin minnti mig á mína síendurteknu drauma sem sækja á mig með jöfnu millibili, þar sem ég stend í ströngu við að uppgera gróft iðnaðarhúsnæði og gera að hinum glæsilegustu húsakynnum. Ætli mig dreymi það ekki í nótt eftir að hafa væflast um safnið hálfan daginn.

ps Nú er Númi strandaglópur á Íslandi. Flugi hans frá CPH til JFK í New York var frestað svo nú liggur hann sennilega sofandi á hótel Klettur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.