New York. Samskiptaleiðir flugfélags eru tvær.

Vindurinn á Íslandi hafði afgerandi áhrif á svefninn hjá mér í nótt. Númi var fórnarlamb flugtafa á Keflavíkurflugvelli og flugið sem hann átti að koma með hingað til New York var aflýst vegna veðurs. Hann var sendur inn til Reykjavíkur á hótel sem reyndist svo fullt, hvert herbergi bókað, svo hann varð að redda sér öðru hóteli og var kominn inn á hótelherbergi klukkan fjögur að nóttu á íslenskum tíma.

Ég varði hins vegar tímanum í nótt til að reyna að finna flug fyrir unga manninn en það var gersamlega ómögulegt að komast í samband við Flugleiði. Ég beið í meira en klukkutíma á símalínunni áður en ég gafst upp og chatt-línan svaraði ekki orði af því sem ég skrifaði. Flugleiðir hefur bæði e-mail hjá Núma og símann hans en hann hefur enn ekki heyrt í þeim og nú er liðinn meira en sólarhringur síðan fluginu var aflýst. Mér finnst það skrýtið að Flugleiðir sendi ekki skilaboð um stöðu mála þar sem þeir hafa þessa tvo samskipta-kanala til farþega sinna; tölvupóst og sms. En það var bara vegna þess að okkur datt í hug að hafa samband við dönsku skrifstofu Flugleiða að hann fær flug á morgun. En svefninn var ekki mikill.

En í dag hef ég verið niður í Brooklyn, fór niður í South Slope hverfið þar sem Paul Auster og Siri Hustved búa. Ansi líflegt hverfi og mikið af hipsterstöðum. Ég var svona hálft í hvoru að vonast eftir að hitta Paul eða Siri á ferðum mínum. Það hefði verið gaman að rifja upp gömul kynni með þeim hjónakornum. Ég gaf út Paul Auster á sínum tíma og ég hef bæði hitt hann á Íslandi og í Danmörku.

Ég fór í bókabúðina þeirra hjóna í Brooklyn, Community Bookstore, og keypti auðvitað bók. Milkman eftir Önnu Burns, bók sem ég hef lengi ætlað að lesa. Ég skil ekkert í sjálfum mér að ég kaupi bara bækur, endalausar bækur og aldrei neitt handa sjálfum mér annað en bækur. Ég skil bara ekkert í þessum ótrúlega bókaáhuga. Ekki var lesið upphátt fyrir mig þegar ég var barn, ég man ekki til þess að foreldrar mínir hafi ýtt bókum að mér; en ég er sólginn í bækur og hef verið það alveg frá því ég var sjálfur fær um að rölta niður í Þingholtsstrætið á Borgarbókasafn til að fá lánaðar bækur til að lesa. Furðulegt.

Bókakassar í Brooklyn þar sem fólk getur fengið ókeypis lesefni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.