Á göngu minni um New York borg í dag (ég hef gengið 21.877 skref) varð mér hugsað til þess hve algengt það er að fólk festist; noti aftur og aftur sömu trikkin, velji sömu leiðir og það gerði þegar það var ungt. Ég nefni þetta hér þar sem ég syrgi að stærsti skemmtistaður háloftanna, WOW-air er farinn á hausinn. (Það er af eigingjörnum hvötum sem ég sakna WOW-air því mér finnst verra að það er orðið miklu dýrara að fljúga til Íslands). Ekki fór svo fyrir stærsta skemmtistað landsins á jörðu niðri, NOVA-símafélaginu, sem væntanlega hefur lækkað símakostnað landsmanna. En bæði þessi fyrirtæki (sem hafa skemmtistaða-konseptið í hávegum) eru afkomendur – ef maður má segja svo – skemmtistaðarins TUNGLSINS sem rekinn var af Björgólfi Thor (eiganda og stofnanda NOVA) og Skúla Mogensen (hinum vinsæla eiganda WOW-air) fyrir örugglega þremur áratugum.
Bókaforlagið Tunglið tengist ekkert gamla skemmtistaðnum sem brann til kaldar kola ef ég man rétt og forlagið er heldur ekki rekið á „hér er stuð“ konseptinu eins og NOVA og WOW, heldur á „totalt jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar“-konsepti; ekkert er í boði sem ekki selst og ekkert er selt sem ekki er í boði. Að vísu er langt síðan ég hef heyrt af þessu fína forlagi og ég spurði mig á göngunni í dag (sennilega þegar ég hafði gengið um það bil 15000 skref): „Snæi, segðu mér eitt: eru þeir, Tunglfélagar, hinir nýju, hættir starfssemi?“ Ég átti ekki annað svar en „ég veit það ekki.“ En ég geri mér grein fyrir, þegar ég hugsa mig um, að ég hef til dæmis ekki fengið ljóðabréf í marga mánuði. Kannski er ég bara fallinn í ónáð?
Ég hef hins vegar gengið um New York borg í dag; frá Ground Zero allt upp til 57. strætis með viðkomu á mörgum fínum stöðum; Ground Zero Museum, Amazon Store (þar tókst mér að kaupa eina bók), Barnes & Nobles (ekkert keypt), Adidas (Sus vantaði skó), Republic Café, Think café, LCG café, As is bar (bjórbarinn sem Sölvi hefur mælt svo mjög með), Apple store (Davíð vantaði cover á símann), MoMa store (þar sem ég keypti gleraugu), Blink–myndlistarbúð (þar sem við keyptum liti fyrir Styrm, Agl, Millu og Mónu), Best Buy store (Davíð leitaði enn að cover á símann), myndavélabúð sem ég man ekki hvað heitir (Davíð vantaði snúru í myndavél). Pinos Pizza (keyptum pizzusneiðar fyrir Núma sem er væntanlegur seint í kvöld með fluginu frá Keflavík). Og nú sit ég í Batman íbúð í New York. Uppi á 22. hæð og hingað berst umferðarniður frá götunni og þegar þeir hita mjólkina á Starbucks kaffistaðnum á fyrstu hæð byggingarinnar nem ég hið háværa ýluhljóð frá mjólkurhitaranum.
That’s it. Yo!