New York. Hinn alvörugefni höfundur.

Númi er kominn – eftir sína löngu ferð frá Malaga til Kaupmannahafnar og þaðan til Íslands með löngu stoppi vegna vinds og svo hingað til New York – og við gengum saman niður í bæ áðan. Við ætluðum ekkert sérstakt bara eitthvað suður Manhattan og sjá hvað gerðist. Ég hafði eitt markmið; að fá mér kaffibolla á leiðinni og Númi velti fyrir sér að fá Rússana hérna á neðstu hæðinni til að klippa sig að lokinni gögnu, annars var ekkert á dagskrá. Við ráfuðum um, smeygðum okkur inn á kaffistað og fengum okkur langþráðan kaffibolla, fórum inn í skóbúð til að athuga hvort fáanlegir væru góðir skór og svo komum við að Amazon bookstore, einni af nokkrum nýjum bókabúðum sem hafa opnað í New York síðustu mánuði. Netrisinn Amazon, sem selur flestar sínar bækur í gegnum netverslun sína, er farinn að opna raunverulegar bókabúðir víða um stórborgir Bandaríkjanna og úrval búðanna byggir á stjörnugjöfum, umsögnum og sölulistum netbúðanna. Við ráfuðum þarna um búðina – sem svo sannarlega er til fyrirmyndar hvað varðar skipulag og framsetningu bóka – og ég fann svo sem ekkert nýtt sem mig langaði að lesa enda hef ég nóg.

Eftir nokkurt ráp spurði ég Núma hvort hann vantaði eitthvað að lesa. Hann glotti og sagði nei. Hann vantaði ekkert að lesa enda er hann enginn sérstakur lestrarhestur. Svo spurði ég Núma:
„Hvað með vini þína, Númi? Hvað lesa þau?“
„Lesa?“
„Já.“
„Ekkert.“
„Ekkert? … lesa vinir þínir ekki? Enginn af vinum þínum?“
Númi hugsaði sig um í stutta stund og svaraði svo.
„Nei, enginn svo ég viti.“

Mér finnst þetta frekar sorglegt. Bara af því að mér finnst fólk fara svo mikils á mis við að lesa ekki neitt, lesa aldrei neitt. Ég hef að minnsta kosti mikla gleði af því.

Það rignir í New York borg … eða það rigndi í New York borg áðan á meðan við gengum um, en þegar ég lít út um gluggann núna sé ég að það rignir alls ekki í New York borg. Ég er kominn heim úr leiðangri, sit við dagbókarskrif. Eftir klukkutíma ætlum við að borða kvöldmat á Zuma veitingastaðnum sem er hérna í borginni og er með þennan líka fína mat á boðstólum.

ps. Ef Amazon bookstore hefði haft bók Hauks Más Helgasonar, Ó – um þegnrétt... hefði ég keypt hana. En bók þessa alvörugefna rithöfundar var ekki til sölu í Amazon. Ég leit áðan inn í bókabúð Forlagsins á netinu og sá að þeir bjóða ekki upp á e-bók-útgáfu á bókinni. Ef ég mundi panta prentuðu bókina og fá hana senda í pósti þyrfti ég að borga allskonar gjöld, tolla, virðisaukaskatt, vörugjald og hvað öll þessi gjöld heita því nenni ég ekki lengur að panta prentaðar bækur frá Íslandi. Ég veit ekkert hvort mér líki bók Hauks Más; ég las stundum blogg hans og þótti það stundum fullalvarlegt og orðmargt, en samt langar mig svolítið að lesa bókina.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.