Boston. Dominos áhrifin

Um níuleytið á sólbjörtum morgni í miðjum aprílmánuði gekk ég ákveðnum skrefum yfir hina fjölförnu götu Dartmouth street í Boston. Svo skarpt var sólarljósið og blindandi að erfitt var að sjá lengra en tíu skref mót sólu. Það var góð tilfinning að finna yl sólarinnar á göngunni. Allt er að lifna, trén að springa út og bleik kirsuberjatrén setja svip á bæinn. Við höfðum ákveðið að ganga yfir bæjarfljótið Charles river og yfir á háskólasvæðið í nágrannabænum Cambridge þar sem bæði Harvardháskóli og MIT eru til húsa. Við höfðum ekki verið lengi á göngu þegar við örkuðum framhjá firnasnyrtilegum pizzastað sem rekinn er undir nafni Dominos.

Ég segi frá þessu hér því pizzastaðurinn vakti hjá mér gamla minningu sem ég rifja reglulega upp. Þetta var á fyrstu árum íslensku útrásarinnar svokölluðu. Ungur maður hafði náð undraverðum árangri með rekstur Dominospizzustaðanna í Reykjavík og í anda þeirra strauma sem blésu um íslenskt viðskiptalíf á þeim árum ákvað hann einna fyrstur manna að reyna fyrir sér með sambærilegan rekstur í útlöndum og opnaði Dominospizzustað í Kaupmannahöfn, rétt við Rådhuspladsen. Þetta vakti að vonum nokkra athygli á Íslandi.

Fáum mánuðum eftir opnun Dominos í Danmörku átti ég leið um Rådhuspladsen að kvöldlagi og framhjá hinum nýopnaða stað. Á undan mér gengu hjón nokkuð eldri en ég. Konan hafði vakið eftirtekt mína því hún klæddist voldugum, skósíðum pels sem skein á undir götuljósum borgarinnar. Ég heyrði að þau töluðu saman á íslensku. Þau gengu hönd í hönd og ég tók eftir að þau stöldruðu augnablik við þegar þau stóðu andspænis stórum gluggum veitingastaðarins og litu bæði forvitin inn.
„Það er enginn þarna inni,“ sagði konan og það hlakkaði greinilega í henni yfir því að viðskiptaævintýri Íslendingsins á erlendri grund virtist almisheppnað.
„Jú, það eru tveir,“ svaraði karlinn og vonbrigðin í röddinni voru auðheyrileg. Svo gengu þau áfram og ég á eftir. Ég komst ekki hjá því að heyra að þau hófu mikla og háværa greiningu á stöðu pizzastaðarins og hve fáa lífdaga staðurinn ætti væntanlega fyrir höndum.

Ég hef svo oft hugsað um þessi hjón, illkvittnislegt tal þeirra og hina greinilegu öfund þeirra í garð velgengni annarra; í þessu tilviki hins hugumstóra pizzamanns. Satt að segja var þetta ekki í síðasta og eina skiptið sem ég hef orðið vitni að slíku tali. Margoft síðar hef ég orðið var við þessa sömu afstöðu hjá öðrum og hjónin sýndu í garð unga íslenska pizzusalans sem hafði freistað gæfunnar í útlöndum. Stundum grunar mig að þetta hugarfar sé nánast landlægt á Íslandi; djúpstæð öfund, illvilji og hálfgert hatur út í þá sem hafa náð árangri í viðskiptum af einhverju tagi, hvort sem það er innanlands og utan. Slíkir menn eru oft að ósekju dæmdir svindlarar eða skúrkar, jafnvel hvort tveggja.

Nóg um það. Ég kann vel við mig hér í Boston og fyrir tilviljun uppgötvaði ég í dag að hér á listasafni í borginni er sýning á verki Ragnars Kjartanssonar. Það langar mig til að sjá og sennilega læt ég verða af því á föstudaginn.

Boston. Séð yfir Charlesriver

dagbók

Ein athugasemd við “Boston. Dominos áhrifin

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.