Ég varð var við vissar efasemdir hjá fólki sem las dagbók gærdagsins varðandi komu vorsins í Boston. Ekki hef ég hugmynd hvort engin merki eru um vorkomu á Íslandi, en ég lofa að hér í þessari fínu borg, Boston, hefur hin góða og bjarta árstíð haldið innreið sína. Til að styðja mál mitt tók ég nokkrar myndir og birtist ein hér að ofan sem sýnir falleg blóm kirsuberjatrésins.
Stundum les ég vefmiðil sem heitir Kjarninn. Ég er ekkert stórhrifinn af fréttamennskunni þar en finnst hún þó betri en víða annars staðar. Ég las á þessari vefsíðu umfjöllun um einskonar árás sem alþingismaðurinn Guðmundur Andri Thorsson hafði orðið fyrir í Hagkaup í Garðabæ af einhverjum vel klipptum náunga í ullarjakka; fulltrúa „vonda fólksins“ ef marka má orð Guðmundar Andra. Ég hef lengi verið mikill aðdáandi á meðferð alþingismannsins og rithöfundarins á rituðu máli. Mér finnst hann hafa undurgóð tök á íslenskunni og honum tekst oft að gæða einföldustu setningar fegurð sem maður sér sjaldan annars staðar. Það eitt að kalla ónotin sem birtast á hinum svokölluðum samfélagsmiðlum „netbræði“ finnst mér bera vott um einstaka færni hans með tunguna.