Boston. Bókasafnsdraugurinn

Nú er runninn upp brottfarardagur; við fljúgum frá Boston til Keflavíkur í kvöld og lendum á Íslandi snemma í fyrramálið. Þar með er þessi Bandaríkjaferð á enda. Stoppið á Íslandi verður stutt því við snúum aftur til Danmerkur á mánudagsmorgni, eldsnemma. Ég á von á öllum mínum mörgu börnum og fylgifólki þeirra í heimsókn í Hvalfjörðinn um helgina; það er ég ánægður með.

Hér er föstudagurinn langi, en maður verður satt að segja ekki sérlega mikið var við helgi þessa dags hér í útlöndum. Ég man ekki betur en að allt hafi verið lokað á Íslandi en hér er ekkert bendir til að fólk syrgi píslardauða frelsarans og loki og slökkvi; það er setið á kaffihúsum, keypt í matinn, ráfað um fatabúðir og götutónlistarfólk flytur vegfarendum lög eftir Bítlana og Bob Dylan. Sjálfur drakk ég morgunkaffi á bókakaffi hér í næstu götu, fékk hádegisborgara og fínan bjór á brugghúsi bæjarins, Tillium og síðan sá ég stórfína myndlistarsýningu Ragnars Kjartanssonar á listasafni hér í bænum.

Nú er ég búinn að stimpla mig út af hótelinu og ætla að skrifa dagbók dagsins á bókasafninu hér handan götunnar. Þar er mikil Harvard-stemmning.

ps. rakst áðan fyrir tilviljun á netskrif Eiríks Arnar Norðdahl – kannski var það áhrif frá bókasafnsdraugnum að netsíðan kom upp á tölvuskjánum hjá mér – en ég hafði frekar gaman af skrifum hans.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.