Hvalfjörður. Sumarhús II

Fyrsta gistinóttin í nýja sumarhúsinu framundan. Mikil gleði. Ég hef hlakkað til að hafa stað hér á Íslandi þar sem ég get tekið á móti mínu fólki. Eftir flugið frá Boston í nótt, með lendingu fyrir klukkan fimm í morgun, brunuðum við til Hvalfjarðar – ég tók að vísu stutt stopp á fásóttu kaffihúsi þar sem ég hef aldrei áður setið og fékk mér kaffibolla með nýjum samstarfsaðili Betsy-verkefnisins svokallaða.

Á meðan ég beið á kaffihúsinu eftir að fundartíminn rynni upp (klukkan 09:00) sat ég með kaffi og kanilsnúð og las í nýrri bók Hauks M. Helgasonar Ó – um þegnrrétt ... Ég komst ekki mjög langt í lestrinum áður en ég þurfti að sinna öðru en bókin, eða texti bókarinnar, kom mér aðeins í opna skjöldu. Strax á fyrstu síðum blasti við mér gamansemi höfundar sem ég er ekki alveg á línu með. Þessi tegund fyndni vekur alltaf hjá mér einhverja þýska kennd. (Ég stundaði nám í Þýskalandi fyrir mörgum árum, en það vita ekki margir). Þetta er sem sagt ekki mín fyndni en flestum finnst þetta örugglega svakalega fyndið og höfundur er fimur og klár. Ég er bara með þessa fötlun að þessi tegund gamansemi verkar ekki vel á mig. En ég held áfram að lesa og kannski þroskast ég.

Að loknum þriggja tíma fundi á kaffihúsinu keyrði ég í humátt á eftir hinum fjölskyldumeðlimunum út til Hvalfjarðar og hér hef ég verið í dag og puðað; gert svefnherbergi tilbúin, tekið til í eldhúsi, fleygt drasli, pappa og plasti og reynt að gera húsið íbúðarhæft.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.