Espergærde. Að vera heima.

Eftir fimmtán daga í útlöndum – fimmtán daga að heiman – sit ég hér í mínum góða stól og nýt þess að vera kominn heim. Ég finn hvað mér þykir gott að eiga heima hér í húsinu mínu. Hér er notalegt og hér finnst mér ég eiga heima.

Satt að segja fékk ég þessa sömu tilfinningu í sumarhúsinu í Hvalfirði, ég var heima. Ég naut þess svo sannarlega að vera í þessu góða húsi mitt úti í fallegri, íslenskri náttúru með Hvalfjörðinn ljómandi í sólinni beint fyrir utan gluggann. Og ekki spillti fyrir að fá allt þetta góða fólk í heimsókn. Stoppið á Íslandi var bara allt of stutt. Tveir sólarhringar.

Á Íslandi hafði ég ekki tíma til að hitta neina nema börnin mín og fjölskyldur þeirra. Ég hefði endilega viljað hitta fleiri, mér finnst orðið langt síðan ég hef verið á Íslandi þar sem ég á ekki annað erindi en að hitta vini mína og fjölskyldu. Nú er kominn tími á Halafund og fundi með öðru góðu fólki.

Það hefur margt gerst í náttúrunni á meðan ég hef verið að heiman; grasið er farið að grænka, trén hafa laufgast um blóm farin að springa út.

dagbók

Skildu eftir svar