Espergærde. Illgresi í blómabeði

Þegar ég gekk til vinnu eftir Gylfesvej rétt fyrir klukkan átta í morgun í brakandi sólskini laust þeirri hugsun niður í kollinn á mér að í dag er 23. apríl, dagur bókarinnar eins og hann kallast. Af því tilefni komu í huga mér orð einhvers sem ég talaði við eða eitthvað sem ég las (ég man það ekki) að ungt fólk gengi upp í því að lesa ekki bækur. Það montaði sig af því að lesa aldrei neitt og hafi aldrei lesið neitt. Ég varð auðvitað leiður að heyra þetta. Það var öðruvísi þegar ég var ungur drengur; ég gekk upp í því að hafa lesið heimsbókmenntir og það sem efst var á baugi og það gerðu fleiri sem ég þekkti.

Ég er að reyna að manna mig upp í sinna verkefnum dagsins. Það eru nokkrir tölvupóstar sem ég á eftir að svara, reikningar sem ég þarf að greiða, áskriftir sem ég þarf að segja upp og svona smáhlutir hafa safnast upp í huga manns og valda ókyrrð þegar maður hefur verið lengi í burtu. En nú framkvæmi ég og losa aðeins heilaspennuna.

Ég er einn á skrifstofunni sem verður ógnarheit á sólskinsdögum. Sólin skín beint inn í gegnum stóra skrifsstofugluggana. Skrifstofufélagi minn, skipamiðlarinn, er ekki vaknaður þannig að ég leyfi mér að spila tónlistina með háum hljóðstyrk. Tónlistarmaður þessa mánaðar er Lera Lynn. Ég hafði lofað Sölva að hafa hana á dagskrá hjá mér þennan mánuð. (Lera Lynn er þekktust fyrir að hafa samið titillag True Detective seríunnar sem sýnd er á Netflix).

ps. Mér hefur verið tíðhugsað í dag til ungrar stúlku, eða ungrar konu, sem sat við hliðina á mér í Helsingør-lestinni í gær á leið frá flugvellinum. Ég tók eftir að hún reyndi látlaust að hringja á milli þess sem hún skrifaði eitthvað á símann sinn (SMS eða Messenger eða …) Ég veitti þessum aðgerðum konunnar enga sérstaka athygli en ég fann einhverja spennu frá henni því hún stundi þungan með jöfnu millibili og það streymdi frá henni óánægjan. Í hátalarakerfi lestarinnar hafði verið tilkynnt að lestin færi ekki langt, næst yrði stoppað rétt norður af Kaupmannahöfn vegna þess að lestarteinarnir væru lokaðir. (Fundist hafði dularfullur pakki í lest við Skodsborg og lögreglan og sprengjusérfræðingar höfðu verið kallaðir á staðinn og lokað öllum leiðum í gegnum bæinn.)

Loks var svarað á hinum enda línunnar og fyrsta setning ungu konunnar við hliðina á mér var: „Af hverju svararðu ekki símanum?“ Þetta sagði hún á sænsku og með greinilegum pirringi. Ég heyrði að samtalið gekk stirðlega, þjakað af pirringi ungu konunnar sem vildi greinilega að sá sem var á hinum enda línunnar (kærasti geri ég ráð fyrir) væri betur vakandi yfir símtölum frá henni. Konan var áhyggjufull yfir að lestin stoppaði á miðri leið og hún var sennilega ekki viss hvernig hún átti að komast áfram leiðar sinnar.

Ég veit svo sem ekki hvað hún og viðmælandinn töluðu um, ég lagði ekki við hlustir, en ég nefni þetta hér þar sem ég hef alltaf átt svo erfitt með pirring fólks – ef ég mæti pirring fer ég alltaf í baklás og verð þver og leiðinlegur – mér finnst pirruð í samskiptum eins og ilgresi í blómabeði. Pirring hef ég aldrei séð leiða til neins góðs. En ég get líka sagt það hér að ég varð vitni að því að kærastinn kom og sótti ungu konuna á lestarstöðinni í Skodsborg. Hann virtist ekki hafa látið pirringinn setja sig í bakkgír því hann var ekkert nema brosmildin og hýrleikinn þegar unga pirraða konan birtist í dyrum lestarvagnsins.

pps. Ég er enn að hugsa um Ísland og veru mína í Hvalfirði. Mér fannst svo gott að finna hina íslensku lykt, vindinn blása í gegnum hlífðarklæði og hlusta á söng hinna íslensku fugla. Þarna á ég heima. Útsýnið yfir sólbjartan Hvalfjörðinn er líka eins og smyrsl á sálina

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.