Espergærde. „Þorpið fylgir þér alla leið“

Að gleyma lyklum kann ef til að verka sem lítilfjörlegt atvik, yfirsjón sem skiptir litlu, en mér óx það ægilega í augum þegar ég gerði mér grein fyrir lyklaleysinu eftir að hafði arkað áfram í miklum flýti alla leið til skrifstofunnar, að þurfa að ganga aftur sömu leið (2180 skref). Ég var þreyttur, orkulaus, tímalaus og bugaður þegar ég þreifaði eftir lyklunum í vasa mínum á tröppunum við innganginn en greip í tómt. Ég varð því að snúa við og ganga sömu leið til baka í þeim erindum að sækja lyklana að vinnuaðstöðunni til að geta hafist handa. Svona endurtekningar, eins og að ganga tvisvar sömu leið, fara stundum gersamlega með mig. Ég verð svo beygður, þjakaður og uppgefinn.

Hin tvöfalda gönguferð var þó ekki með öllu til einskis. Ég nýtti göngutímann til að hlusta (hljóðbók) á Hallgrím Helgason lesa gamansögu sína, sín sextíu kíló af sólskini. Það er ekki leiðinlegt. En ég stend mig að því aftur og aftur undir þessum fína lestri að spyrja sjálfan mig hvers konar höfundur Hallgrímur sé. Bókum hans er snúið á mörg önnur tungumál og það hlýtur að vera þrekraun fyrir þýðendur að færa hinn mikla orðadans höfundarins á annað svið svo hann verði skiljanlegur öðrum þjóðum. Hallgrímur er fyrst og fremst fimur orðadansari. Þótt söguefnið sem hann velur bjóði upp á nokkuð drama er sjaldnast mikill þungi í sögunum. Í augum sumra er það mikill kostur að hann svífi svona fislétt yfir með glensi og gamni en aðrir sakna kannski hinnar þungu dýptar. Ég ætla hvorki að dæma um hvort sé betra, né að segja að ekki liggi líka alvara í texta skáldsins.

Að öðru. Mér barst bréf í gær frá lesanda Kaktussins. Ég hafði lýst því hve greinilega ég fann fyrir því að hjarta mitt var íslenskt þegar ég stóð í rokinu á vorgrænum þúfunum upp í hlíðum Hvalfjarðarsveitar í síðustu viku og fann hina sérstöku íslensku lykt leika við mitt stóra nef. „Þú verður að hafa aðstöðu á Íslandi. Þú veslast upp á þessu flata, fallega landi sem þú býrð í hafir þú ekki ekki stað til að vera á … Það er dómur að hafa fæðst á Íslandi … þorpið fylgir þér alla leið eins og Jón úr Vör sagði; það er grimmlega rétt,“ segir bréfritari, og eins og svo oft áður, hefur hann rétt fyrir sér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.