Espergærde. Áfengissýki

Þegar ég er á göngu horfi ég til hægri og ég horfi til vinstri. Stundum lít ég meira að segja til baka. Þótt ég óskaði þess að allt væri alltaf nýtt í augum mínum kemst ég ekki hjá því að hafa á tilfinningunni að allt fari í endurtekinn hring; sólarhringur, vika, mánuður, ári, öld … 24 tímar, 24 tímar, 24 tímar (sem má líka skipta niður í 8 tímar (svefn), 8 tímar (vinna), 8 tímar (milli vinnu og svefns)). Vikunni sem eru 7 dagar má skipta niður í 5 daga (virka daga) og 2 daga (helgi). Svona er tilveran; endurteknar, litlar melódíur inn í hinni stóru sinfóníu (symfoni), endurtekin dansspor í hinum mikla hópdansi. Þetta hugsa ég.

Ég hef undanfarna daga lesið portúgalska skáldið Fernando Pessoa (Hann minnir mig á tvo einstaklinga: Luis Figo, fótboltasnillinginn frá Portúgal og skáldið Eirík Guðmundsson frá Bolungarvík). Ég hef aldrei fyrr kynnt mér skáldið og verk þess almennilega. En nú hef ég lesið bæði ljóð, dagbókarbrot og ritgerðir eftir Pessoa og hans önnur egó: Ricardo Reis, Álavaro de Campos, Alberto Caeiros …(ég held að hann hafi haft meira en tuttugu persónur undir sinni stjórn, hann Pessoa). Það var svo fyrst í gærkvöldi að ég las æviágrip skáldsins sem dó úr skorpulifur vegna stórkostlegrar áfengisnotkunar aðeins 47 ára gamall.

Þegar ég las um alkóhólisma Pessoa rann upp fyrir mér ljós, ég uppgötvaði hvað það var sem truflaði mig í textum hans. Þegar ég var ungur maður vann ég í tvö ár með námi á áfengismeðferðarheimili fyrir mjög langt leidda alkóhólista. Þetta voru karlar og konur sem höfðu margoft áður verið í meðferð og staðurinn sem ég vann á var oft síðasta stopp þessa fólks áður en þau dóu, drápu sig eða voru drepin. Ég talaða við þetta fólk, ég heyrði það tala og það var sérstakur tónn í því hvernig þau skynjuðu sjálft sig, aðra og heiminn og það var akkúrat þessi tónn sem ég þekkti hjá Pessoa án þess að gera mér grein fyrir samsvöruninni fyrr en ég las um áfengissýki hans.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.