Espergærde. Bókmenntatíðindi

Ég er spenntur fyrir bókmenntafréttum frá mínu gamla heimalandi (líka annars staðar frá) og heyri ýmislegt út undan mér, fæ fréttir í tölvupóstum, en sé nánast engar fréttir um bókmenntir í hinum opinberu fjölmiðlum. Það fór því næstum framhjá mér þegar tilkynnt var að Ian McEwan hefði unnið hin nýju alþjóðlegu Laxnessverðlaun. Ég heyrði að Lestin, útvarpsþátturinn, ætlaði að fjalla um verðlaunin í dag en það var einhver undirtónn í tilkynningunni frá Lestarfólki, eins og Ian McEwan væri ekki verður heiðursins, svo ég reyndi aðeins að kynna mér viðtökur þessara nýju verðlauna á Íslandi.

Mér varð svo sem ekki sérlega ágengt, ekki er mikið rætt um verðlaunaveitinguna en ég heyrði þó að einhver teldi að Ian McEwan hefði fengið verðlaunin af því að hann hefði typpi. Þegar ég las það varð ég auðvitað hlessa að sumir geta bara ekki komist upp úr þessum kynjasporum; að allt skuli skýrt á þessum nótum, eins og að dómnefndir geti ekki haft annað til grundvallar vali sínu en kynferði mögulegra verðlaunahafa.

Ég man vel eftir því þegar ég las fyrstu bækur Ian Mc Ewan, smásagnasöfnin First Love, Last Rites og In between the Sheets. Ég varð gífurlega hrifinn og mér fannst þetta, sem ungum manni, stórkostleg uppgötvun. Síðan hef ég fylgst vel með ritstörfum McEwan og lesið flestar bækur hans sem undantekningalítið eru bæði áhrifamiklar og áhugaverðar. Mér finnst hann fullkomlega verður þessara verðlauna og ég efast ekki um að dómnefndin hafi einungis haft rithæfni og afrek höfundarins á ritvellinum að leiðarljósi. Auðvitað væru fleiri vel að þessum verðlaunum komnir en mér finnst valið sannarlega gott.

ps. Ég sá að dómnefndin er skipuð Elizu Reid forsetafrú, Einari Má Guðmundssyni rithöfundi og Stellu Soffíu Jóhannesdóttur framkvæmdastjóra Bókmenntahátíðar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.