Ég er nú ekki að hugsa um dauðann, það er ekki dauðinn sem ég hugsa um eða tímann sem bara þýtur hjá. Nei, ég hugsa ekki það.
Ég horfi á stóru flutningaskipin sigla úti á sundinu. Þau líða hægt upp meðfram ströndinni eða niður sjávarrennuna í suðurátt.
Þótt ég standi í fjöru og skipin séu langt undan heyri ég samt lágan og þungan vélarnið sem ég ímynda mér að koma frá skipunum en ekki innan úr sjálfum mér.
Ég verð fljótlega þreyttur á glápinu, sný ég mér við og rek augun í tvo unga garðyrkjumenn reykja undir húsvegg handan við götuna. Þeir eru báðir síðhærðir, hafa grasgrænku á hnjánum og halda hvor á sínum rafljá. Mig grunar að þeir séu líka að skoða siglingu stóru farmskipanna; þeir rýna að minnsta kosti báðir í átt til sjávar. Milli okkar, uppi á gangstéttinni, hleypur kona með bleika derhúfu sér til heilsubótar. Ég tek eftir að sígaretturnar eru langt reyktar og finn á mér að bráðum kasta þeir stubbunum frá sér og setja sláttuvélar sínar aftur í gang.