Espergærde. Tregaskáld og gamalt matarboð

Tregaskáld. Þetta var fyrsta orðið sem mér datt í hug þegar ég settist fyrir framan Kaktusinn. Kannski hef ég síðustu vikur lesið yfir mig af skáldskap Pessoa og fengið ofskammt af melankólsku tali hans og því kemur þetta orð fram í fingurgómana þegar ég lyfti þeim yfir hnappaborð tölvunar minnar.

Kannski var það kveðjustundin í morgun sem fór svona illa í mig og kallaði fram þennan trega sem hrjáir mig nú. Hér hef ég haft minn góða félaga Jón Karl í heimsókn síðasta sólarhring. Í morgun kvöddumst við; hann hélt sína leið og ég sat eftir að sinna mínum málum. Ég nýt þess mjög að hafa minn gamla samstarfsmann hjá mér, spjalla við hann, heyra sögurnar, allar kenningarnar og allar greindarlegu athugasemdirnar. Kannski kallar þessi góða samvera fram söknuð yfir einhverju sem ég hef ekki lengur.

Í dag er 30. apríl og þann dag hef ég alltaf reynt að halda svolítið hátíðlegan því þetta er afmælisdagur mömmu minnar. Mér finnst hún eiga það inni hjá mér að ég haldi upp á daginn, baki til dæmis pönnukökur og heiðri þannig minningu hennar. Kannski er það afmælisdagurinn sem kallar fram þennan trega?

Eða var það sagan sem ég heyrði um gamalt matarboð sem fór svona illa í mig og gerði mig leiðan?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.