Espergræde. Gott leiðir gott af sér.

Það er margt gott sem sprettur af Bókmenntahátíð í Reykjavík. Nú var hátíðin haldin að vori, tengd við dag bókarinnar, fæðingardag Laxness og að 100 ár eru frá því að Nóbelsverðlaunahafi þjóðarinnar gaf út sína fyrstu skáldsögu. Og svo voru veitt verðlaun í hans nafni í tengslum við hátíðina, Laxnessverðlaunin, og var hugmyndin með verðlaununum meðal annars að veita þekktum höfundi, stóru alþjóðlegu nafni, viðurkenninguna og lokka hann (höfundinn) þannig til að taka þátt í sjálfri hátíðinni og þar með að gera Bókmenntahátíðina í Reykjavík enn kræsilegri. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að sá frægi höfundur Ian McEwan var valinn. En óheppilegt að taktíkin skuli hafa misheppnast því höfundurinn átti ekki heimangengt og komst ekki til að lýsa upp hátíðina.

En það er sem sagt margt gott sem sprettur af Bókmenntahátíð. Út eru til dæmis komnar fjöldi góðra þýðinga á verkum höfunda sem heimsóttu hátíðina. Meðal annarra bóka sem vakið hafa athygli mína eru bókin Þakkarskuld eftir Golnaz Hashemzadeh Bonde (írönsk) og bók hins tyrkneska Hakan Günday. Báðar eru þessar bækur mögnuð lesning.

Einnig heyrði ég að Óskar Árni Óskarsson (þýðing á örsögum) og Bragi Ólafsson (smásaga) hefðu gefið út litlar bækur á vegum smáforlagsins Þrjár hendur. Mér tókst að fá hlaupaglaðan sendiboða til að skokka eftir báðum bókunum fyrir mig og senda mér með pósti. Og þriðja bókin sem vakti athygli mína er ný bók eftir Hermann Stefánsson. Jón Karl var hér í vikunni og sýndi mér eintak af bókinni sem hann hafði meðferðis og mér leist afar vel á hana. Mér finnst Hermann spennandi höfundur þótt ég falli alls ekki fyrir öllu sem hann skrifar. Ég er ennþá að hugsa um bókina hans Spennustöðin sem mér finnst ein albesta bók sem ég hef lesið á íslensku. Ég var mjög hrifinn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.