Espergærde. Tilfinningauppnám

Í gærkvöldi náði ég langþráðum áfanga í verkefni sem ég hef verið að vinna að í nokkra mánuði; ég sendi afrakstur erfiðis míns áfram á næsta áfangastað. Ég varð eiginlega dálítið undrandi yfir eigin viðbrögðum þegar ég lokaði tölvunni og hallað mér aftur í stólnum – áfanganum var náð – því ég fann að ég var í nokkru tilfinningalegu uppnámi; ólga í brjóstinu og kökkur í hálsinum. Hvað maður verður meyr með árunum!

Ég var feginn að sitja bara með sjálfum mér í þögninni hér í bókahorninu mínu á meðan ég náði að herða mig upp. En svo hringdi síminn og vakti mig af minni tilfinningavellu. Á línunni var félagi minn, rithöfundur, sem tilkynnti mér að hann væri hættur að skrifa bækur. Hann væri búinn að fá nóg. Nú sæti hann við og púslaði saman handritum fyrir sjónvarpsseríu sem Netflix hefði áhuga á að kaupa. „Ég hef skrifað langar bækur og ég veit hvað það kostar mikla þjáningu og angist; í hvert sinn sem ég skrifa bók er líður mér eins og þátttakanda í ironman. Í samanburði er handritaskrif fyrir sjónvarp eins og að hlaup á sumarkvöldi niður á strönd og aftur til baka. Easy piecy.“

„Og svo var ég að uppgötva að ég er gersamlega tekinn af lífi í bók sem var að koma út eftir konu sem ég kannast við. Ég er alveg eyðilagður, þetta er svo ósanngjarnt. Við lifum á tímum mannorsmorða. Ekkert er léttara en að taka menn af lífi í dag, og það án afleiðinga. Það er orðið svo nauðsynlegt að gera gagnbyltingu þar sem einstaklingar eru varðir fyrir einelti, menn skulu leita sannleikans í stað fyllast heilagri hneykslan; verða móðgaðir fyrir hönd síns húðlitar, síns kyns, sinna trúarbragða … menn skulu hafa leyfi til að hugsa frjálsa hugsun, tjá sig í stað þess að vera bundinn af þessari heimskulegu hjarðhugsun sem nú tröllríður öllu.“

Þetta var boðskapur gærdagsins og ég er alveg sammála vini mínum.

ps. Í dag er kulturtur eins og við köllum mánaðarlegar ferðir okkar á menningarslóðir. Við erum fjögur. Síðast var það leikhúsferð, í dag ferðinni heitið inn til Kaupmannahafnar til að sjá Bauhaussýningu og skoða arkitektur í Valby.

pps. Ég las rétt í þessu í dagblaði dagsins að tveir nemendur í menntaskóla, sem höfðu klætt sig fyrir grímuball eins og Obama-hjónin og makað andlitið með svörtum lit, hefðu verið sendir í bað. Einhverjir samnemendur þeirra höfðu orðið reiðir yfir þessu gervi og þótt það vanvirðing við svart fólk og þeirra þrælabaráttu og því voru nemendurnir neyddir til að þvo litinn úr andlitinu. Hmmmm.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.