Ég hef verið lengi að koma mér að verki í dag, ég er seinn að setjast niður til að sinna dagbókarskrifum dagsins. Það hlýtur að hljóma undarlega en ég fer ég að hafa áhyggjur þegar ég dreg á langinn að senda Kaktusfærslu dagsins út í heiminn; það eru raunverulegar áhyggjur (en svo sannarlega óþarfar) af þeim sem lesa Kaktusinn daglega og koma að tómum kofanum á heimasvæði Kaktusins. Svona hugsa bara varnarmenn.
En það er ástæða fyrir þessum töfum. Í fyrsta lagi lá ég lengi upp í rúmi í morgun og las alveg til klukkan tuttugu mínútur yfir átta. Í öðru lagi fór ég og hengdi upp fuglahús úti í garði. Það eru litlar blámeisur (Parus caeruleus) í garðinum hjá mér, þær flögra milli trjágreinanna og mér finnst þeim vanta húsaskjól. Ég get fylgst með búskap þeirra í gegnum eldhúsgluggann og það finnst mér gaman. Í þriðja lagi greip mig eitthvað þrifnaðaræði, ég þaut um stofur, herbergi og eldhús með ryksugu, í fjórða lagi skoraði Sus á mig að ganga með sér út í sveitina (sem ég gerði) og í fimmta lagi fannst mér ég ekki geta lengur dregið á langinn að svara löngum tölvupósti sem mér barst í gærkvöldi sem bæði var upplýsandi en var líka fullur af alls kyns spurningum til mín sem mér fannst mér bera skylda til að svara. Svona leið morguninn og nú er klukkan að orðin hálfþrjú.
Ég ætlaði að kaupa nýja bók David Foenkinos, Ráðgátan Henri Pick en svo var hún ekki fáanleg sem e-bók og mér finnst orðið alómögulegt að kaupa prentaðar bækur frá Íslandi; tollvesenið hér í DK er svo erfitt og dýrt að það er til að gera alrólegasta mann gjörsamlega hugsjúkan. Svo ég neyddist til að biðja GV að senda mér pdf af bókinni. Það gerir hún vafalaust.
ps. ég gleymdi að segja frá því að það var kultur-tur-dagur í gær. Lestarferð inn til Kaupmannahafnar. Atriði dagsins:
1. Bauhaus sýning í tilefni 100 ára afmælis Bauhaus-hreyfingarinnar.
2. Dansk-design sýning (mjög skemmtileg)
3. Heimsókn í turninn á Knippelsbroen (koparturninn er einn af minnisvörðum mordenismans í evrópskri byggingarlist.)
4. Hamborgari á hinni dönsku útgáfu Tommaborgara í Kjöbænum. (Tommi’s Burger Joint)
5. Københavns sisternene. Gamalt neðanjarðar vatnsforðabúr Kaupmannahafnar.