Espergærde. Samtal á götuhorni

Á horni Gylfesvej og Strandvangsvej gekk ég fram á tvær konur sem hölluðu sér upp að garðhliði og reyktu sígarettur. Þetta er óvenjuleg sjón á morgungöngu til skrifstofunnar; klukkan var ekki orðin átta. Venjulega mæti ég engum nema syfjulegum hundaeigendum með hunda sína í eftirdragi svo snemma morguns. En þarna stóðu þessar tvær velklæddu konur – báðar mjög sparibúnar – og reyktu. Bílnum þeirra, ægilega fínum, hvítum Mercedes Benz-bíl, var lagt undarlega illa; hálfum upp á gangstétt svo afturendinn stóð langt út á götu.

Mín fyrsta hugsun var að hér hefði orðið slys, ákeyrsla af einhverju tagi. Ég fór í viðbragðsstöðu ef ég skyldi hjálpa. En ég var fljótur að átta mig á að götuhornið var ekki vettvangur slyss; konurnar voru of rólegar og bíllinn virtist alheill. Ég velti fyrir mér hvort þessar konur ættu erindi í hús sem stendur þarna spölkorn frá og er eitt af fínustu húsum bæjarins. (Ég læt mynd fylgja). Ég tók sjálfur ekki eftir að ég hafði numið staðar á göngu minni til að virða fyrir mér þessa fátíðu sjón. Það var ekki fyrr en konurnar litu upp og vinkuðu til mín og kölluðu „Hello!“ að ég rankaði við mér. Ég giskaði á, útfrá framburði þeirra á þessu litla kveðjuorði, að þær kæmu úr austri þessar konur, frá Póllandi eða Rússlandi.

Ég svaraði kveðju þeirra kurteislega með því að bjóða þeim góðan dag og gekk síðan áfram leiðar minnar. En þá var aftur kallað á eftir mér, nú var spurt hvort ég hefði áhuga á að reykja sígarettu þeim til samlætis. Ég staldraði við og sneri mér í átt til þeirra til að sjá svipbrigðin á andlitum þessara austur-evrópsku kvenna og reyndi að skilja hvað lægi að baki boðinu, því tóninn í setningunni átti ég erfitt með að túlka; hann var hnausþykkur eins og oft hjá austur-evrópsku fólki. En andlit þeirra var jafnerfitt að lesa og tóninn; þær horfðu alveg hlutlausar á mig. Þær gáfu ekkert upp.

Ég afþakkaði þetta vinsamlega boð og hraðaði mér nú í átt til skrifstofunnar án þess að líta um öxl. Satt að segja er ég enn að reyna að skilja erindi kvennanna tveggja snemma morguns á fáförnu götuhorni í smábæ á Sjálandi.

Mynd frá hinu umtalaða götuhorni. Hvíta húsið, með svarta þakið, aftast í myndinni er eitt af glæsilegustu húsum bæjarins og mig grunar að konurnar tvær væru á leið þangað í heimsókn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.