Það rignir, ekki í sálinni, heldur í smábænum mínum. Svört skýin sigla hér yfir á nokkurri hraðferð og hella yfir mig og aðra bæjarbúa þungu regni. Þrátt fyrir hin dimmu ský, sem ekki bara hanga yfir bænum mínum heldur virðast þau stundum grúfa sig yfir allan heiminn, hef ég það fínt því ég er hér inni í skrifstofuhlýjunni. Ég er þurr og horfi út á regnvota nýbygginguna hér handan götunnar. Ég er búinn að drekka fyrsta kaffibolla dagsins, fyrsta af þremur því nú er ég farinn að takmarka kaffineyslu mína af tveimur ástæðum. 1. ég sef betur, það verð ég bara að viðurkenna þótt ég hafi árum saman haldið því fram að kaffi hefði engin áhrif á svefninn hjá mér. Ég sef miklu betur og værar eftir að ég hætti að drekka kaffi á kvöldin. 2. Á alveg náttúrlegan og átakalausan hátt takmarka ég alla mína neyslu. Það kemur eðlilega til mín. Ég borða minna, drekk minna, kaupi fáa hluti, nota handsláttuvél, reyni að kaupa mat sem er framleiddur í námunda við heimili mitt, sendi plast, batterí, ál, föt, skó í endurvinnslu, keyri sjaldan bíl. En ég geng meira (lágmark 10.000 skref á dag). Þetta er mitt fátæklega framlag.
Það má segja að á þennan hátt minnki ég Co2 mengun mína. Þótt ég viti vel að mitt framlag er álíka merkilegt og maður sem vill hækka yfirborð sjávar með því að pissa í sjóinn. Danmörk, það mikla neysluland, er ábyrgt fyrir 0,1% af Co2 mengun heimsins. Mitt fátæklega framlag hefur því afar takmarkaða þýðingu. Lausnin á loftlagsbreytingum er því miður ekki nema að mjög litlu leyti í höndum nefstórs manns frá Íslandi. Ég held að þessi sami Íslendingur verði að treysta á stjórnmálamenn og þá sem sinna rannsóknum í nýrri tækni sem minnkar Co2 mengun. (Ég treysti á þig, Sandra!). Þar liggur lausnin á vanda okkar.
Í gærkvöldi var mér bent á viðtal við rithöfundinn Hermann Stefánsson í Fréttablaðinu. Bók Hermanns, Dyr opnast, kom út fyrir nokkrum dögum og af því tilefni hefur hin reynda menningarblaðakona, Kolbrún Berþórsdóttir, tekið viðtal við höfundinn. Þetta er fínt viðtal og Hermann er líkur sjálfum sér. Ég held því fram við sjálfan mig og aðra að Hermann sé einn athyglisverðasti penni þjóðarinnar. Mér finnst Hermann bæði skarpur, djarfur og pennafimur. Hann er að minnsta kosti ekki hluti af hinum mikla og hvimleiða hjarðkór sem syngur á Íslandi.