Espergærde. Svindl

Ég er eiginlega að svindla, hugsaði ég þegar ég skrifaði fyrstu orðin í dagbók dagsins því ég skrifaði þessi orð í gær. Mér lá nefnilega nokkuð á hjarta og því var eins gott að koma því frá sér að kvöldi og birta niðurstöðuna daginn eftir í stað þess að halda í sér og byrja fyrst á morgun að skrifa þegar manni liggur eitthvað á hjarta.

En það má ekki skilja það svo að ég hafi eitthvað gífurlega mikið að segja, alls ekki. Ég varð eiginlega bara svolítið uppveðraður í stólnum mínum þar sem ég sat einn í kvöldhúminu og las í þremur bókum sem ég fékk með póstinum fyrr um daginn. Ég hafði beðið eftir bókunum þremur með töluverðri tilhlökkun – svona er nú komið fyrir mér að eitt mesta gleðiefni mitt er að fá ferskt og gott lesefni – ég var því ekki seinn á mér að hefja lestur.

Ég fékk sem sagt þessar þrjár bækur sem sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Lífsgæðin eftir Braga Ólafsson ( Katrín Mogensen er skrifaður samhöfundur hans en hún teiknar 7 myndir í bókina, sem eru bara skemmtilegar). Bókina hans Braga kláraði ég hálftíma eftir að ég opnaði umslagið sem innihélt bókina. Mér finnst yfirleitt gaman að lesa Braga og þetta er sannarlega Bragaleg saga sem hann birtir í þessu fína hefti. Mér fannst samt eiginlega ljóðið, skilrúmin, sem fylgdi heftinu sem aukablað nokkuð áhugaverðara og kveikti meira í mér en sagan.

Ég fékk líka bók Hermanns Stefánssonar, Dyr opnast, og hef nú lesið fyrstu tvær sögurnar (ég hef ekki lesið meira því kvöldið er enn ungt) sem lofa svo sannarlega góðu. Ég er gífurlega ánægður með þessar tvær fyrstu sögur, sérstaklega heimsóknina í Guðshúsið sem er hreint stórfín.

Þriðja bókin sem mér barst með póstinum er bók eftir konu sem ég hef aldrei fyrr heyrt getið. Bókin kallast 23 sannar sögur og er eftir Parísarkonuna Sophie Calle. Óskar Árni Óskarsson hefur þýtt 23 sögur úr safni 50 örsagna sem höfundur birti fyrst árið 1994. Nína Óskarsdóttir myndskreytir sögurnar ágætlega og kannski eru myndirnar besti hluti bókarinnar. Nú las ég þessa bók tvisvar sinnum (þetta er stutt bók) því ég hélt að ég hefði misskilið eitthvað. En ég sannfærðist eftir annan lestur að þessir textar voru ekki fyrir mig. Mér fannst sögurnar bara loft, hugsunin bak við þær loðin ef hún var þá einhver og tilgerðin töluverð. Og satt að segja datt mér í hug saga HC Andersen um Nýju fötin keisarans. En það er nú ekki fallegt að skrifa slíkt. En ég segi í algjörri hreinskilni að ég var ekki hrifinn af textum Sophie Calle. Svona textar segja mér alls ekki neitt. Sem betur fer eru margir sem hafa hrifist af bóklist Sophie, ég gleðst yfir því. Ég leyfi mér að birta einn stuttan, en dæmigerðan, texta í ágætri þýðingu Óskars Árna – örsöguna vel ég af því hún er ein af þeim styttri – svo lesendur eigi möguleika á að skilja um hvað ég er að tala:

MINNISLEYSI

Það er alveg sama hvað ég reyni mikið, ég get aldrei munað augnlit nokkurs manns eða stærð og lögun kynfæranna. Ég taldi mig aftur á móti trú um að eiginkona ætti að vita þessa hluti. Og gerði þess vegna hvað ég gat til að takast á við þetta minnisleysi. Ég veit núna að hann er með græn augu.

Svo mörg voru þau orð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.