Espergærde. Hin mannbætandi iðja.

Ég átti fund með gömlum félaga úr forleggjarastétt í gær inni í Kaupmannahöfn. Við höfðum mælt okkur mót á veitingastað miðsvæðis í Kaupmannahöfn, ekki langt frá forlagsskrifstofu hennar. Mér finnst gaman að fylgjast með forlagsbransanum, ég hef óendanlega gaman af bókmenntum og starfslíf mitt hefur meira minna snúist um bækur. En eftir fundinn og langt samtal við forleggjarann, fann ég hvað ég mér er stórkostlega létt – og fagnaði því enn einu sinni ákvörðun minni – að hafa selt Hr. Ferdinand, DonMax og C&K forlögin. Ég finn hvað ég nýt þess að standa fyrir utan þetta forlagsbasl.

Á sama hátt og félagi minn sem er byrjaður að helga líf sitt að sumu leyti baráttu fyrir minni Co2 mengun í heiminum (hann heldur dagbók) ætti ég að eyða meiri tíma í að auka útbreiðslu hinnar mannbætandi iðju: bóklestri. Það er ekki síður mikilvægt til að bæta mannlífið í heiminum. Hvernig geri ég það? Nú byrja ég að hugsa og næstu daga ætla ég að hugsa.

Þessi hugmynd um að auka fjörið í kringum bóklestur, bókmenntalífið og bókaútgáfu hefur lengi blundað í mér. Einu sinni prófaði ég ásamt gömlum og góðum samstarfsmanni og félaga að búa til vefsíðu í kringum skemmtifréttir í bókabransanum. Við skemmtum okkur við þetta, en þetta krafðist nokkurs tíma og töluverðar orku frá okkar hendi. Því missti ég dálítið flugið – auðvitað algjör aumingjaskapur af minni hálfu – þegar einn af lögreglumönnum internetsins fór að fetta fingur út í þessa skemmtun okkar og fleiri lögreglumenn tóku undir. Mér fannst það á svo furðulegum forsendum að ég varð bæði sár og reiður – sem var alger aumingjaskapur – að ég missti einhvern vegina gleðina við þessa iðju og við ákváðum að draga okkur í hlé. En ég hugsa enn hvað ég geti gert til að auka lífsgleði fólks; vísa því veginn að hinni dásamlegu iðju sem bóklestur er.

Í dag skal ég þó ekki nota tíma minn í að sá fræjum bókmenntaáhuga í heiminum. Í dag er ég boðinn, ásamt nokkrum ungum mönnum, til afmælisveislu inn í Kaupmannahöfn, heil Bodega hefur verið leigð undir okkur 20 karlmenn og ég held að borinn verði fram herramatur, kjöt í sósu. Ég á von á þess veisla dragist fram á nótt. Ég er ekki heimsins mesta partýdýr en þetta verður örugglega skemmtilegt.

Ég kláraði að lesa bók Hermanns Stefánssonar í gær. Því miður finnst mér honum aðeins fatast flugið í seinni hluta bókarinnar. Hann er snjall og margt skemmtilegt i bókinni en ég var ekki eins glaður með seinni hluta bókarinnar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.