Espergærde. Endurtekningin

Það gerðist aftur. Eftir mína fínu morgungöngu til skrifstofunnar – nú skín sólin og fuglarnir syngja – uppgötvaði ég þegar ég tók í hurðarhúninn að skrifstofan var læst (það er hún alltaf þegar ég kem) og ég hafði gleymt lyklunum mínum. Endurtekning það er ekki mitt uppáhald. En ég neyddist til að ganga sömu leið til baka og ná í lykilinn minn.

Ég þekki ekkert í kringum þessa hljómsveit Hatari en mér finnst hljómsveitin og liðsmenn hennar fá undarlega mikið pláss í íslenskum fjölmiðlum. Ég vildi að fjölmiðlar nýttu hluta af öllum þessum dálkasentímetra í eitthvað skemmtilegra eða viturlegra (að mínu mati). Ég viðurkenni að þetta fyrirbæri fer í taugarnar á mér, bara nafnið finnst mér svo hræðilegt. Og sú afstaða þeirra að þeir telji sig eiga sérstakt erindi til Tel Aviv og koma þeirra til landsins muni geta haft áhrif á hina flóknu deilu milli Ísrael og Palestínu. Án þess að vita sérlega mikið um Hatara efast ég af einhverjum ástæðum um að þessir búningaklæddu drengir (eru þetta ekki bara drengir?) muni breyta gangi sögunnar. En maður skyldi aldrei segja aldrei. Ég furða mig bara á þessu – getur það verið að Eurovison og Hataraflokkurinn sé svona gífurlega mikilvægur þáttur í íslensku þjóðlífi?

ps. Ég fékk þessa fínu bókasendingu í gær (sjá mynd að ofan). Mér þykir svo flott hönnun á bókunum frá DonMax að litur er settur á endann á pappírnum; gulur, bleikur, grænn …

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.