Ég átti fund hér á skrifstofunni í morgun. Ung kona hafði samband við mig fyrir nokkrum dögum. Hana dreymdi um að verða rithöfundur, hún hafði skrifað bók og var að skrifa aðra bók. Nú langaði hana til að heyra hvort gamall forleggjari gæti hjálpað henni til að fá bók sína útgefna hjá forlagi. Henni fannst ekki auðvelt að ná í gegn og ég skyldi alveg hvað hún var að berjast við. Ég gat því ekki neitað henni um aðstoð – eða neitað henni um að gera tilraun til að aðstoða. Hún virtist glöð þegar hún fór af fundinum en hvort hún nái í gegn með handrit sín hjá forlagi hér í Danmörku verður tíminn að leiða í ljós.
Með tímanum kemur framtíðin í ljós. Listi yfir það sem tíminn leiðir í ljós:
- Ég kann vel við að Pep Guardiola hafi hendurnar oftast í buxnavösunum. Það er eitthvað viðkunnanlegt við líkamstjáningu manns sem gengur með hendur í vösum. Tíminn verður að leiða í ljós hvort við Pep eigum eftir að ná saman með verkefni okkar.
- Þegar ég horfi fram í tímann sé ég ekki neitt; ég vil ekki segja að ég sjái svart því það gæti verið rangtúlkað. Þegar ég horfi hins vegar til baka í tímann sé ég fyrir mér matsal Menntaskólans við Hamrahlíð. Stúlka gengur hröðum skrefum framhjá mér og styður sig við hækjur. Hún er með sólgleraugu. Hún er bæði hölt og með augnsjúkdóm. Fyrir aftan mig situr ungur maður uppi á borði með stuttan hártopp. Það vill svo til að ég hef hitt konu hans nýlega (í marsmánuði þessa árs) en hann sé ég aldrei augliti til auglitis. Af myndum að dæma er eins og hártoppur hans hafi aldrei vaxið. Tíminn verður að leiða í ljós hvort ég eigi eftir að hitta þennan mann með hártoppinn aftur.
- Þegar ég horfi upp í himinninn sé ég ekki hvort yfir mér séu gervihnettir. Á kvöldin sé ég stjörnurnar. Ég veit að stundum hrapa gervihnettir niður af himnum og líka stjörnur en hvort einhver lendi ofan á mér verður tíminn að leiða í ljós.
- Tíminn verður að leiða í ljós hvort markvörðurinn Jonas Lössl spili áfram fyrir Huddersfield Town FC þrátt fyrir afleitt gengi í vetur.
- Mig grunar að Yrsa Sigurðardóttir gefi út nýja bók í haust, mig grunar líka að Bergsveinn Birgisson reyni að koma bók á markað á þessu ári. En ég veit það ekki.
- Þegar ég horfði á ökumanninn sem stoppaði hér fyrir utan skrifstofugluggann minn slá fast með báðum höndum í stýrið á bílnum sínum (sem voru held ég viðbrögð við því að hann komst ekki áfram þegar hann vildi) sá ég ekki hvort í augunum var gamansamt blik. Hann gaf ekki stefnuljós og því verður tíminn að leiða í ljós hvort hann beygi til hægri eða vinstri.
- Verður söguleg nútíð sögumáti framtíðarinnar?
- Hvernig verður októbermánuður í lífi stórnefjaðs Íslendings? Verður þetta gleðilegasti mánuður ársins? Tíminn leiðir það í ljós.
- Þegar ég horfi í norðvesturátt frá húsinu mínu sé ég ekki Ísland þótt stefna augna minna sér rétt. Ég sé heldur ekki þá sem opna dyr og ganga annars hugar út úr húsi í Reykjavík. Ætli sá tími mun renna upp, kannski með hjálp langsýnisgleraugna, að ég sjái svo langt.
- Mun tíminn halda áfram að auka hraða sinn? Halda sekúndurnar áfram að styttast? Tíminn leiðir það í ljós.
- Þegar ég horfði á ljóðskáldið mala einhverja vitleysu um nýjustu ljóðabókina sína sá ég ekki hvort hann var að meina það sem hann safði. En ég hugsa að það geti varla verið. Tíminn verður að leiða í ljós hvort hann hafði rétt fyrir sér.
- Þegar ég horfi á manninn banka á hjarta sitt með flötum lófa til að gefa til kynna að hann tali frá hjartanu, sé ég ekki hvort það sé satt. Ég efast og er undrandi á því. Að eðlisfari er ég ekki tortrygginn. Tíminn verður líka að leiða í ljós hvort hann hafi sagt sannleikann og hvort ég fái draum minn uppfylltan að ég geti lesið hjarta allra manna. Í framtíðinni.