Espergærde. Upplýsingar um nafn þátttakanda í söngvakeppni

Í gær las ég grein Nínu Hjálmarsdóttur um þátttöku Íslands í hinni vinsælu Eurovisionkeppni. (Fyrir þá sem ekki vita hvað Eurovisionkeppni er: Á íslensku heitir keppnin Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva og er sennilega stærsti menningarviðburður ársins á Íslandi. Felst keppnin í flytja sönglag í beinni sjónvarpsútsendingu og að því loknu velja dómnefndir allra þátttökulandanna besta lagið. Sennilega hefur það líka farið framhjá flestum en nafnið á hljómsveitinni sem kemur fram fyrir hönd Íslands í keppninni er Hatari. Hér með er þessu komið á framfæri.) Ég var frekar hrifinn af greininni hennar Nínu; ég er ekki sammála höfundi í öllu sem hún skrifar en greinin er ágætlega samin og athyglisverð.

Ég vaknaði í morgun eftir frekar órólegan svefn. Það var eitthvað sem truflaði mig. Þegar ég settist fram á rúmbríkina velti ég fyrir mér hvað væri að herja á huga minn. Niðurstaðan kom án þess að ég hugsaði: Stundum vekur fólk hjá mér furðu. Það kemur fyrir. Sérstaklega finnst mér undarlegt þegar fólk notar opinberlega ljót orð til að gera lítið úr samferðafólki sínu og ræktar óvináttu og tortryggni, með skætingi og innibyrgðri heift. Ég verð ekki undrandi á fólki sem breiðir út vináttu og velvilja. Já, þetta var mín fyrsta hugsun í morgun. Kannski dreymdi mig bara eitthvað illa.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.