Espergræde. Ólíkar orkubrautir

Í dag er frídagur hér í Danmörku – hinn stóri tilbeiðsludagur, þar sem ætlast er að maður biðji fyrir kónginum eða drottningunni. Það er þess vegna sem ég sit heima í dag, engin skrifstofuseta. Ég held áfram að vera í smákreppu vegna skrifstofunnar minnar. Í gær rétt fyrir hádegi, eftir að hafa setið óeinbeittur frá því klukkan átta um morguninn, ákvað ég að fá mér göngutúr niður á höfn og svipast um eftir húsnæði sem kannski væri hægt að þróa sem skrifstofu.

Að vísu byrjaði ég á að koma við hjá bakaranum og kaupa mér svokallað pizzubrauð og eitt stykki af kanilsnúð. Ég er hvorki vanur að borða hvítt brauð né sætmeti. Ég átti ekki margra kosta völ ,því ekkert almennilegt er á boðstólum hjá bakaranum, en þegar ég ákvað að falla fyrir þessum tveimur bökunarvörum hélt ég að kannski væri þetta skemmtilegur og óvenjulegur hádegismatur. Að loknum innkaupunum gekk út á hafnargarðinn – með nestispokann – þar sem búið er að koma fyrir nokkrum bekkjum og fékk mér sæti þar í sólinni. Ég borðaði nestið. Kyrrðin var algerlega og enginn nema ég úti á hafnargarðinum og það var fallegt að horfa á litlu fiskibátana vagga við bryggjukantinn í blíðunni. Þessi hamingjufulla ró þarna á bekknum minnti mig á atvik sem rithöfundurinn Lars Saabye Christensen lýsti einu sinni fyrir mér.

Sagan er svona: Lars var einn á gangi í hafnarbæ í Frakklandi. Hann valdi að ganga inn í íbúðarhverfi sem byggt var í brekku rétt við ströndina. Frá gönguleiðinni blasti Miðjarðarhafið við með allri sinni fegurð. Lars hafði ekki gengið mjög langt þegar hann ákvað að fá sér sæti á bekk þar sem útsýnið var sérlega fallegt. Þarna sat hann dágóða stund og horfði út í buskann. Sólin glampaði í sléttum haffletinum. Úr fjarska heyrði hann vinalega hundgá, í trjánum fyrir aftan hann sungu fuglar og engispretturnar fluttu sina einhæfu engisprettusinfóníu. Og svo gerðist það. Allt í einu fyllst Lars þeirri einstöku og afar sjaldgæfu hamingjusælu sem hellist skyndilega yfir mann bara eitt augnablik. Lífið var stórkostlegt.

En ég sat sem sagt við höfnina og hafði borðað sætmetið (sem ég sá gífurlega eftir að hafa gleypt í mig (ég kann ekki að meta slíka fæðu)) en allt í kring var unaðslegt. Ég sat á fína rauða bekknum og hélt áfram að velta fyrir mér hvernig ég geti leyst mitt stóra skrifstofuvandamál. Hluti af því sem gerir skrifstofuna mína svo óaðlaðandi er hinn algeri skortur á orku þar inni. Ég hef ágætan samleigjandi, mjög góðan mann sem kemur einstaklega vel fram við mig, en við erum ekki á sömu orkubylgju svo hann, með þögn sinni sogar dálítið kraftinn og orkustraumana úr skrifstofunni. Þannig líður mér að minnsta kosti.

Palli Vals hringdi í gær og færði mér mikil gleðitíðindi. Ég hef verið að þýða fyrir Bjart og sú bók sem ég þýddi síðast virðist hafa fengið afar fínar móttökur. Ég gladdist mjög yfir því.

ps. Mig dreymdi minn gamla keppinaut í nótt, Jóhann Pál Valdimarsson, Kötturinn hans hafði drepið broddgölt og borið hann inn þar sem við sátum og ræddum útgáfumál. Jóhann Páll hafði í samræðum okkar sett sig mjög hatrammlega gegn því að teiknað yrði kort sem ég hafði óskað eftir í bók sem við unnum að saman. Svo ég var feginn að hann einbeitti sér um stund að kettinum og broddgeltinum á meðan ég hugsaði hvaða aðferðum ég gæti beitt til að sannfæra útgefandann um gildi hugmyndar minnar.

pps. Las þetta stórskemmtilega viðtal við rithöfundinn Hermann Stefánsson.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.